David Gieselmann, höfundur Herra Kolberts, er væntanlegur til Íslands til að sjá rómaða uppfærslu á leikriti sínu hjá LA. Verk Gieselmanns hafa verið sýnd um allan heim en Herra Kolbert er hans þekktasta verk en það hefur verið sýnt um nær alla Evrópu auk Bandaríkjanna, Ástralíu og Suður Ameríku. Gieselmann þáði boð um að koma til Akureyrar í kjölfar afar jákvæðra dóma og viðbragða áhorfenda sem sýningin hefur hlotið. Sérstök hátíðarsýning verður haldin í tilefni komu hans laugardagskvöldið 9. desember og mun höfundurinn taka þátt í umræðum að sýningu lokinni.
 
David Gieselmann er fæddur árið 1972 og ólst upp í Darmstadt í Þýskalandi. Hann er leikari og leikstjóri en lauk svo námi frá Listaháskólanum í Berlín í handritaskrifum árið 1998.  Í framhaldinu setti hann upp fjölda eigin leikverka, þar á meðal Ernest in Bern, The Globes og The Big Building Project, Fruhstuck og die Plantage.  Hið virta Royal Court höfundaleikhús í London bauð honum að taka þátt í leikritasmiðjum árið 1999 og 2000, en það var einmitt þar sem Herra Kolbert var frumsýnt. Verkið hlaut mikið lof og hefur síðan  verið sýnt víða um heim þar sem það hefur vakið verðskuldaða athygli enda beitt og ágengt þrátt fyrir ómótstæðilegan húmor. Auk þess að hafa verið sýnt um nær alla Evrópu þá hefur verkið verið sýnt víða um Bandaríkin, í Rússlandi, Ástralíu og Suður Ameríku.

Herra Kolbert var frumsýnt hjá LA 28. október og verður verkið sýnt fram að jólum. Sýningin hlaut einróma lof gagnrýnanda. Meðal þess sem sagt hefur verið um sýninguna er:

"glæsilega unnið sviðsverk með skínandi beittan brodd…Frábær skemmtun – alvöru hrollur. Flott verk, flottur leikur, flott sýning."  PBB, Fréttablaðið, 30/10/06
“frábærlega vel unnin….Drepfyndið… Leikfélag Akureyrar hefur hitt í mark og eignast fyndna og hæfilega ögrandi sýningu sem gaman er að spjalla um í góðra vina hópi að henni lokinni." ÞT, Mbl, 30/10/06
"gríðarlega áhrifamikil sýning" SLG, RÚV, 30/10/06
“enn ein skrautfjöðurin í hatt Leikfélags Akureyrar" HMB, Akureyri.net, 30/10/06
"fjögurra grímna hressandi helvíti… Það er magnað að vita til þess að hér norður við heimskautsbaug sé okkur boðið uppá frábæra leiksýningu í heimsklassa… Herra Kolbert er sýning sem ég ætla að sjá aftur." JJ, Dagur.net, 30/10/06

Jón Páll Eyjólfsson leikstýrir sýningunni en þýðingu gerði Bjarni Jónsson. Leikmynd og búninga hannar Íris Eggertsdóttir og ljósahönnuður er sem fyrr hjá LA Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist og hljóðmynd semur Hallur Ingólfsson. Ragna Fossberg hannar gervi sýningarinnar. Leikarar eru Edda Björg Eyjólfsdóttir, Gísli Pétur Hinriksson, Guðjón Davíð Karlsson, Ólafur Steinn Ingunnarson og Unnur Ösp Stefánsdóttir. Samstarfsaðilar LA við uppsetninguna eru Visa Ísland – Eimskip – Höldur.

Sýningum lýkur 16. desember. Að gefnu tilefni skal tekið fram að sýningin er ekki væntanleg til Reykjavíkur, þrátt fyrir fjölda fyrirspurna og áskorana.