Söngleikurinn Hárið verður fumsýndur á vegum Silfurtunglsins í Menningarhúsinu Hofi þann 15. apríl og verður sýndur mjög þétt yfir páskana. Þetta er einn vinsælasti söngleikur heims og höfðar til fólks á öllum aldri. Leikstjóri er Jón Gunnar Þórðarson en hann hefur tvisvar sinnum áður sett upp sýningar undir merkjum Silfurtunglsins, Fool For Love í Austurbæ og leikritið Lilja sem sett var upp í Manchester, Englandi.

 

Eyþór Ingi Gunnlaugsson mun fara með aðalhlutverkið, hlutverk Bergers. Hann fór á kostum í hlutverki Riff Raffs í Rocky Horror og er nú kominn tími á aðalhlutverk hjá þessum hæfileikaríka Dalvíkingi. Með hlutverk Claude fer annar Dalvíkingur, Eurovisonfarinn, Matti Matt en hann lék einmitt í verkinu þegar það var sett upp í Gamla Bíói fyrir 18 árum. Jana María Guðmundsdóttir, fer með hlutverk Sheilu. Hún syngur því nokkur af fallegustu lögum sýningarinnar. Eyþór, Matti og Jana tóku öll þátt í The Rocky Horror undir leikstjórn Jóns Gunnars en nú bætist fólk í hópinn. Magni Ásgeirsson mun þenja raddböndin með hópnum og fara með hlutverk blökkumannsins Hud. Pétur Örn Guðmundsson eða Pétur Jesús mun fara með hlutverk Voffa í sýningunni en hann og Matti Matt kynntust einmitt fyrir 18 árum í sýningunni sem sett var upp í Gamla Bíói.

Ívar Helgason fer einnig með hlutverk í sýningunni en hann hefur mikla söngleikjareynslu frá Þýskalandi. Erna Hrönn Ólafsdóttir mun fara með hlutverk Jeane og Ólöf Jara Skagfjörð fer með hlutverk Dione. Erna Hrönn hefur lengi verið helsta bakrödd Íslands en hefur síðustu ár verið að stíga fram sem solo söngkona, nú síðast í forkeppni Eurovision með laginu Ástin mín eina. Erna Hrönn er Akureyringur svo það er spennandi fyrir hana að flytja aftur á sínar æskuslóðir. Ólöf Jara hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið aðalhlutverk í sýningunni Grease, stórt hlutverk í Buddy Holly og var nú síðast í sýningunni Hvað ef hjá Þjóðleikhúsinu, þetta verður fyrsta verkefni Ólafar Jöru á Akureyri.

Menningarhúsið Hof hefur verið lyftistöng fyrir bæjarfélagið. Lokasýning á Rocky Horror var síðustu helgi, en sýningin sló aðsóknarmet LA, alls komu yfir 16.000 áhorfendur á sýninguna. Menningarhúsið hefur alla þá tækni til að setja upp heimsklassa söngleik. Veitingastaðurinn Strikið fagnar fimm ára opnunarafmælinu sínu m.a. með því að styrkja Silfurtunglið til þess að setja upp söngleikinn. Aðstandendur Silfurtunglsins eru afskaplega þakklátir veitingastaðnum og finnst frábært að fyrirtæki á Norðurlandi sé tilbúið að styrkja svona menningartengt verkefni.

Æfingar hefjast þann 14. mars og sýningin frumsýnd þann 15.apríl. Heimasíða sýningarinnar er www.harid.is

{mos_fb_discuss:2}