Föstudaginn 22. janúar kl. 20 verður frumsýnt á Nýja sviðinu nýtt íslensk leikverk Góðir Íslendingar eftir þá Hall Ingólfsson, Jón Pál Eyjólfsson og Jón Atla Jónasson. Verkið er hárbeitt ádeilda á íslenskt samfélag og hvernig við glímum við afleiðingar efnahagshrunsins sem á okkur dundi. Í Góðir Íslendingar er verið að skoða sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar sem birtist m.a. í húsunum sem við byggðum og bílunum sem við keyptum en einnig í því hvernig við komum fram og tjáum okkur á veraldarvefnum og í lífinu yfirleitt. Við erum öll undir smásjánni í verkinu.

Kreppan krefst nýrra leikmuna. Lopapeysur í stað jakkafata, frystikistur í stað vínkæla, tjaldvagn í stað utanlandsferða, slátur í stað lífrænt ræktaðra innbakaðra fashana. Undir yfirborðinu býr sannarlega þjóð sem á sér ýmis leyndarmál. Sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar birtist í húsunum sem við byggðum og bílunum sem við keyrðum en líka í því hvernig við sviðsetjum okkur á veraldarvefnum og í raunveruleikanum. Nú eru þessar sviðsetningar undir smásjánni, það sem áður þótti merki um velgengni vekur nú hjá okkur óhug.

Þeir Hallur, Jón Atli og Jón Páll halda áfram þaðan sem frá var horfið í sýningunni Þú ert hér sem fékk verðskuldaða athygli á fjölum Borgarleikhússins á síðasta ári. Hún hlaut fimm Grímutilnefningar, meðal annars sem sýning ársins og leikverk ársins. Þeir félagar rýna í íslenskan samtíma og hefur sú könnun aldrei verið brýnni en einmitt nú þegar þjóðfélaginu hefur verið snúið á hvolf. Hárbeitt samtímaleikhús unnið upp úr óritskoðuðum heimildum úr lífi Íslendinga.

Höfundar handrits: Hallur Ingólfsson, Jón Páll Eyjólfsson og Jón Atli Jónasson
Leikstjórn, leikmynd og myndband: Hallur Ingólfsson, Jón Páll Eyjólfsson og Jón Atli Jónasson
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Leikarar: Hallur Ingólfsson, Jón Páll Eyjólfsson, Jón Atli Jónasson, Bergur Þór Ingólfsson, Dóra Jóhannsdóttir, Halldór Gylfason og Halldóra Geirharðsdóttir

{mos_fb_discuss:2}