Þjóðleikhúsið frumsýnir Hamskiptin eftir Franz Kafka á Stóra sviðinu, fimmtudaginn 27. september nk. Hér er á ferðinni ný íslensk uppfærsla á rómaðri sýningu leikhópsins Vesturports sem frumsýnd var í Lyric Hammersmith leikhúsinu London í fyrra og hlaut frábærar viðtökur. Hamskiptin eftir Franz Kafka er ein af þekktustu skáldsögum 20. aldarinnar en sagan þykir í senn skelfileg og bráðfyndin. Leikgerð sögunnar og leikstjórn sýningarinnar er í höndum Gísla Arnar Garðarssonar og Davids Farr.


Í Hamskiptunum segir frá sölumanninum lúsiðna Gregor Samsa, sem vaknar upp einn morguninn í líki risavaxinnar bjöllu. Hamskipti þessi hafa skiljanlega mikil áhrif á hina ofurhversdagslegu Samsa-fjölskyldu sem sogast á svipstundu inn í einkennilega martröð. Gísli Örn fer með hlutverk Gregors en óvanaleg líkamsbeiting hans vakti mikla athygli þegar verkið var sýnt í London. Bakgrunnur Gísla í fimleikum nýtist vel í túlkun hans á þessari óvæntu stökkbreytingu manns yfir í skordýr enda er leikið með ýmis lögmál eðlisfræðinnar í sýningunni.
 
 
Með aðalhlutverkin fara sömu leikarar og í London, en auk Gísla Arnar leika Nína Dögg Filippusdóttir og Ingvar E. Sigurðsson  í sýningunni. Tveir af leikurum Þjóðleikhússins taka aukinheldur þátt í uppfærslunni, Elva Ósk Ólafsdóttir og Ólafur Egill Egilsson.
 
Leikmynd hannar Börkur Jónsson en hann var meðal annars tilnefndur til Evening Standard  verðlaunanna fyrir framlag sitt til sýningarinnar í London. Tónlistina semja Ástralarnir heimsþekktu Nick Cave og Warren Ellis. Þýðandi er Jón Atli Jónasson.
 

{mos_fb_discuss:2}