Laugardaginn næstkomandi fer fram kynningarhóf Reykjavík Fringe Festival, eða „Hálft ár í RVK Fringe“ partý á Hlemmur Square. Hér má finna facebook viðburð hófsins.
Fram koma ýmsir listamenn sem að tóku þátt í síðustu hátíð og/eða munu taka þátt í næstu hátíð, og sér uppistandarinn Jono Duffy um að vera kynnir kvöldsins.
Skemmtiatriði eru í höndum skáldsins Elísabetar Jökulsdóttur og Rauða skáldahússins, sem býður upp á einkalestra með Elías Knörr, Ingunni Láru og Ragnheiði Erlu og tarot spá í höndum Báru Halldórsdóttur. Burlesque drottningin María Callista úr kabarett hópnum Dömur og herra heillar viðstadda upp úr skónum og drag drottningin Deff Starr gerir slíkt hið sama. Tónlistarkonan Íris Thorarins leikur lifandi tónlist við tölvuleikinn Abzú og hip hop bandið Regn spilar fyrir gesti í lok kvölds, en Svaný Sif tekur á móti gestum með eldgleypingum.
Aðgangur er ókeypis og eru léttar veigar á boðstólum. Viðburðurinn fer fram milli klukkan 20-23 og er styrktur af Hlemmur Square.
Reykjavík Fringe Festival er listahátíð sem að styrkir við gróskuna í listaheimi landsins. Hátíðin fór fyrst fram sumarið 2018, en fer fram í annað sinn 29. júní til 6. júlí 2019. Hátíðin er opin öllum listformum, og miðaverði er haldið í lágmarki svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það er leiklist, dans, uppistand, málverkasýningar, tónlist, kabarett, drag, sirkús, barnasýningar, skemmtiatriði utandyra, gjörningar eða ljóð til að nefna dæmi.
Aðstandendur hátíðarinnar verða með stutta kynningu á hátíðinni sjálfri á laugardagskvöld og kynna aukalegan umsóknarfrest fyrir listamenn sem koma með sín eigin sýningarhúsnæði, en almennur umsóknarfrestur rann út 30. desember síðastliðinn. Bárust fjöldamargar umsóknir frá 40 löndum, svo búast má við fjölbreyttri og skemmtilegri hátíð í sumar.
Frá 1.-14. febrúar verður í boði svokallað BringYourOwnVenue umsóknarferli fyrir listamenn, þar sem þau geta sótt um að vera partur af hátíðinni með sýningar sem fara fram í heimahúsum, strætóskýlum, skólastofum eða hvar sem er sem þau hafa greiðan aðgang að.
Frekari upplýsingar um hátíðina má finna á rvkfringe.is og á samfélagsmiðlum.