Föstudaginn 10. febrúar frumsýnir Halaleikhópurinn Hassið hennar mömmu eftir Dario Fo í Halanum, Hátúni 12. Þessi leikgerð er unnin af Margréti Sverrisdóttur og Oddi Bjarna Þorkelssyni sem jafnframt leikstýra. Þau byggja hana á gömlu leikgerðinni, sem Stefán Baldursson þýddi, en hafa tekið sér leyfi til að umskrifa senur, skipta um kyn á persónum og skrifa meira að segja inn eina til viðbótar. Allt í því augnamiði að hressa við gamalt verk.

Hassið hennar mömmu er farsi í essinu sínu. Amma og pabbi Lúðvíks hafa tekið til við hassræktun og –reykingar af mikilli ástríðu. Lúðvík getur ekki leitt hjá sér að eitthvað undarlegt er á seyði hjá þeim gömlu. Honum er öllum lokið þegar upphefst mikill eltingaleikur og í hersinguna bætist prestur, eiturlyfjaeftirlitið, ung stúlka og annar óþjóðalýður.

Halaleikhópurinn var stofnaður árið 1992, Hann hefur frá upphafi haft það markmið að „iðka leiklist fyrir alla“. Hópurinn hefur sett upp eina stóra sýningu árlega, stundum fleiri, og er handbragð hópsins metnaðarfullt. Meðal sýninga sem hópurinn hefur staðið að eru Kirsuberjagarðurinn eftir Anton P. Tsjekhov árið 2005 og Gaukshreiðrið eftir Dale Wassermann í leikstjórn Guðjóns Sigvaldarsonar. Þar hlaut hópurinn mikið lof enda var sýningin kosin athyglisverðasta áhugaleiksýningin leikárið 2007-2008 á vegum Þjóðleikhússins. Fékk hópurinn að stíga á Stóra svið leikhússins að launum með verk sitt fyrir fullu húsi.  Einnig hefur leikhópurinn látið  semja fyrir sig ný íslensk verk nokkrum sinnum.

Allar nánari upplýsingar er að finna á vef félagsins www.halaleikhopurinn.is  Sýnt verður í Halanum, Hátúni 12. Hægt verður að nálgast miða á Hassið hennar mömmu í síma 897 5007 og á midi@halaleikhopurinn.is

Næstu sýningar verða:
sunnudaginn 12. feb. kl. 17.00
laugardaginn 18. feb. kl. 17.00
sunnudaginn 19. feb. kl. 17.00
laugardaginn 25. feb. kl. 17.00

Áframhaldandi sýningarplan er svo uppfært reglulega á www.halaleikhopurinn.is