Halaleikhópurinn æfir um þessar mundir barnaleikritið Rympa á ruslahaugnum eftir Herdísi Egilsdóttur, í leikstjórn Herdísar Þorgeirsdóttur. Verkið er leikrit fyrir börn á öllum aldri og hófust æfingar þann 1. nóvember og verður það frumsýnt snemma næsta árs. Leikritið fjallar um hana Rympu sem lifir og býr nú á ruslahaugnum, er frekar ófyrirleitin og hagar lífi sínu ekki alltaf eftir lögum og reglu.

Undir harðsoðnu yfirborði Rympu býr reynsla frá æsku. Þar sem hún er svolítið einmana með tuskukarlinum sínum er það mjög kærkomið þegar hún fær heimsókn tveggja afskiptra barna. Tekur hún þau í sína umsjá og ætlar að kenna þeim ljótar listir. Inn í söguna koma leitarmaður, kerfiskarl sem vill helst geyma börn og gamalmenni í búrum og gömul amma sem er yfirgefin og gleymd á elliheimili. En allt fer vel að lokum.

Herdís Egilsdóttir  er fædd á Húsavík 18. júlí 1934. Hún lauk stúdentsprófi frá MA og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1953. Herdís kenndi lengst af starfsferils sins við skóla Ísaks Jónssonar. Herdís hefur gefið út heilmikið af bókum, sjónvarpsefni og leikritum fyrir börn. Auk þess hefur hún þróað kennsluaðferðina Kisuland sem er kennsluaðferð í samfélagsfræði.

Leikstjórinn Herdís Ragna Þorgeirsdóttir hefur verið viðloðandi leikhús í rúmlega 40 ár. Hún hefur leikið í fjölda leikrita og sótt fjölmörg námskeið t.d í leikstjórn, framsögn, ljóðalestri, trúðaleik og svo almenn leiklistarnámskeið.