Þann 31. janúar n.k. mun Halaleikhópurinn frumsýna leikritið Sjeikspírs Karnival í leikgerð Þrastar Guðbjartssonar, sem einnig leikstýrir sýningunni. Unnið upp úr þremur verkum Shakespears: Þrettándakvöldi, Draumi á Jónsmessunótt og Hinriki IV. Þetta er ærslafullur gamanleikur, sem gerist á einum degi í Illiríu á Karnivali hjá Orsínó greifa. Hann er dapur og því koma vinir hans og leika fyrir hann alls kyns gamanleiki, til að létta honum lífið. Við sögu koma margar af þekktustu gamanleikjapersónum Shakespears, eins og t.d. Malvólíó, Tóbías Búlki, Andrés Agahlýr o.fl.
 
Þetta er sem fyrr segir, eitt allsherjar grín frá upphafi til enda. 18 leikarar taka þátt í sýningunni og annar eins hópur stendur að baki þeim, við hin ýmsu störf. Halaleikhópurinn var stofnaður 27. september 1992 með það að markmiði að „iðka leiklist fyrir alla“ og hefur starfað óslitið síðan.
 
Á þessum árum sem liðin eru frá stofnun Halaleikhópsins, hafa verið settar upp sýningar á hverju ári og stundum fleiri en ein og hafa þær jafnan vakið mikla athygli. Það má segja að Halaleikhópurinn hafi opnað nýja vídd í starfi leikhópa hér á landi, þar sem fengist er við leiklist á forsendum hvers og eins. Sýnt er í Halanum, Hátúni 12 105 Reykjavík. Nánari upplýsingar er að finna á vef Halaleikhópsins www.halaleikhopurinn.is

{mos_fb_discuss:2}