ImageLaugardaginn 11. mars mun Halaleikhópurinn, leikhópur fatlaðra og ófatlaðra, frumsýna leikritið Pókók, fyrsta leikverk Jökuls Jakobssonar. Þegar verkið var skrifað vakti það vonir um að mikið leikskáld væri í fæðingu, sem og varð raunin. Jökull er eitt besta leikskáld sem við höfum átt. Verk hans eru stórbrotin umfjöllun um samtímann, sálarkima mannskepnunnar og á stundum hárhvöss ádeila á íslensku þjóðarsálina. Með hverju verki magnaðist innsæið og verkfæri leikhússins léku í höndum hans.


Pókók er gamanleikur sem fjallar um mann sem er ný sloppinn af Litla hrauni. Hann ætlar að setja á markað og græða stórkostlega á sælgæti, sem vinur hans og samfangi fann upp. En ekki er auðvelt að fylgja hinum gullna vegi til ríkidóms og ekki er sælgætið eins vænt og talið var í fyrstu. Inn í leikritið fléttast blekkingar, svik og brögð. Fegurðardrottningar og óprúttnir þjófar. Leikritið er í 4 þáttum og er tímalaust. Það var samtímasaga þegar það var sett upp fyrst en gæti einnig gerst nú tæpum 50 árum seinna.

Frumsýnt verður laugardaginn 11. mars, klukkan 20:00.
Sýningar verða í okkar litla og notalega leikhúsi að Hátúni 12 og vonandi verða þær sem flestar.
Nánari upplýsingar á halaleikhopurinn.is og í síma 552-9188.
 
 
Meira um Halaleikhópinn:
 
Segja má að hópurinn í allri sinni breidd sé birtingarform þess samfélags sem við viljum sjá í „besta heimi allra heima“.
Heildarhugmynd leikrits getur breyst ef einhver af persónunum er látin fá einhverja fötlun. Hvað ef Hamlet væri í hjólastól? Hvað ef óvinurinn í Gullna Hliðinu væri dvergvaxinn, verður hann jafn ógnvænlegur? Makki hnífur væri á hækjum? Hvað ef Fílamaðurinn væri ófatlaður, en allir aðrir í leikritinu ættu við einhverja fötlun að stríða?
Þessi hugtök hefur Halaleikhópurinn, leikhópur fatlaðra og ófatlaðra leikið sér að með einum eða öðrum hætti í fjórtán ár.
Ekki hefur farið mikið fyrir hópnum á þessum langa tíma þrátt fyrir að hafa sett upp hvert stórverkið á fætur öðru í litla og notalega húsnæðinu í Hátúni 12. Má þar nefna leikrit eins og Túskildingsóperuna eftir Berthold Brecht sem Þjóðleikhúsið er að sýna um þessar mundir, Kirsuberjagarðinn eftir Anton Chekhov, Gullna Hliðið eftir Davíð Stefánsson og Aurasálina eftir Moliére. Auk þess að hafa frumsýnt þrjú splunkuný íslensk leikrit, þá oftast samin með leikhópinn í huga.

Sá sem er svo heppinn að fá að taka þátt í leiklist og í því ferli sem það felur í sér kemst ekki hjá því að líta í eigin barm og velta því fyrir sér hver hann er. Til þess að geta skapað og túlkað persónu þarf einstaklingurinn að geta sett sig í spor annarra, tjáð gleði, sorg o.s.frv. Leiklistin er ekki eingöngu leikari á sviði heldur einnig hópurinn sem vinnur að sameiginlegu markmiði þar sem allir leggjast á eitt. Samt þarf einstaklingurinn að njóta sín á eigin forsendum. Með því styrkist sjálfsmyndin og framtakssemi hans gerir það að verkum að hann eða hún verður færari um að takast á við lífið og tilveruna. Ekki má þó gleyma gamla orðatiltækinu „Maður er manns gaman“.

Halaleikhópurinn, þar sem skortur á hefðbundinni fötlun er engin fyrirstaða!