Í vor mun Vatnadansmeyjafélagið Hrafnhildur leiða sýningu um borð í elsta skipi Landhelgisgæslunnar. Varðskipið Óðinn fær þá nýtt yfirbragð, þar sem ímyndunaraflið fær að flæða um króka og kima. Skipið er míkrókosmos. Sér heimur. Áhorfendur ferðast utan frá og inn; ofan frá og niður. Með því að stíga um borð er komið inn í nýjan heim í tíma og rúmi.

Í sýningunni er brugðið upp táknmyndum af konunni gegnum árþúsundir, saga hennar og samhengi viðrað á nýstárlegan hátt. Saumuð verða hjartasár, keppir fylltir, málshættir bróderaðir. Hugurinn baðaður í jellýi, hunangi, royal-búðingi og majónesi. Uppákomur í bland við innsetningar, tónlist og dans. Áhorfendur eru leiddir um vistarverur skipsins, ganga og geymslur, káetur og klósett. Hvernig er konan þegar búið er að skræla hana og skoða, hún síðan sett inn í heim sem hún hefur aldrei átt þátt í að skapa?

Í lokin er áhorfandinn staddur niðri í vélarúminu, hjarta skipsins, þar sem takturinn er hreinn og klár, og hvert slag sendir frá sér boð um það sem á eftir kemur – hið óvænta er væntanlegt.

Vatnadansmeyjafélagið Hrafnhildur var stofnað árið 1991. Í því eru leikkonurnar: Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Katrín Þorkelsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir og Sigrún Sól Ólafsdóttir.
Aðrir listrænir stjórnendur sýningarinnar eru: Halla Gunnarsdóttir, myndlistarmaður, Þórunn Elísabet Sveinsdóttir, búningahöfundur og Davíð Þór Jónsson, tónlistarmaður.
Aðrir listamenn sem koma að verkefninu eru m.a.: Eirún Sigurðardóttir, Katrín Þorvaldsdóttir, Frosti Friðriksson og fleiri. Meðal leikara auk Vatnadansmeyja má nefna Árna Pétur Guðjónsson, Hörpu Arnardóttur, Rósu Guðnýju Þórsdóttur og Heru Björk Þórhallsdóttur. Alls koma um 50 manns að verkefninu.

Frumsýning á Listahátíð fimmtudaginn 10. maí
önnur sýning föstud. 11. maí
3. sýn. fimmtud. 17. maí
4. sýn. föstud. 18. maí
5. sýn. laugard.19. maí

Miðasala hjá Listahátíð.

{mos_fb_discuss:2}