Laugardaginn 5. apríl næstkomandi verður leikverkið Gítarleikararnir eftir Line Knutzon, í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar, frumsýnt á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu. Verkið, sem mætti kalla hlýlegan gamanleik með lifandi tónlist, fjallar um fjórar manneskjur sem koma saman til að votta nýlátnum trúbador virðingu sína. Line Knutzon hefur einstakt lag á að gæða hversdagslegar samræður persóna sinna fínlegri kímni, en varpa um leið fram tilvistarlegum spurningum með einfaldleika sínum. Knutzon hefur verið nefnd eitt athyglisverðasta leikskáld Dana um þessar mundir. Skemmst er að minnast uppsetningu LR á verki hennar Fyrst er að fæðast fyrir nokkrum árum.

Trúbadorinn John Hansen er fallinn frá. Andlát hans er sviplegt og kemur brauðrist þar nokkuð við sögu. Hansen hefur um árabli verið virtur tónlistarmaður í Danmörku, sent frá sér fjölda laga sem hafa öðlast miklar vinsældir, eins og Hvar er kveikjarinn minn, Ríka svínið skal láta lífið I og Ríka svínið skal láta lífið II, Átta kaldir öllarar, Ég er með krabba, Sokkinn í skuld og fleiri stórfín lög sem aðdáendur hans kunna afturábak og áfram.
 
Að lokinni jarðarför Hansens, hittast fjórir aðdáendur fyrir utan hús hins látna til að æfa saman minningardagskrá með lögum eftir hann. Æfingin fer á annan veg en til stóð en það kemur þó ekki í veg fyrir að trúbadorarnir fjórir láti slag standa. Með hlutverk gítarleikaranna fara Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Halldór Gylfason, Hanna María Karlsdóttir og Jóhann Sigurðarson en tónlistina samdi Björn Jörundur Friðbjörnsson.

Hljóð: Guðmundur H. Viðarsson
Leikgervi: Elín Gísladóttir
Ljós: Halldór Örn Óskarsson
Leikmynd og búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Tónlist: Björn Jörundur Friðbjörnsson
Leikstjóri: Hilmir Snær Guðnason
 

{mos_fb_discuss:2}