Nýtt, íslenskt leikverk um hina íslensku bjartsýni. Frumsýnt í Tjarnarbíó föstudaginn 26. febrúar.

Gripahúsið er nýtt íslenskt leikverk eftir Bjartmar Þórðarson. Verkið er unnið frá upphafi til enda í Tjarnarbíó en Bjartmar skrifaði verkið í rithöfundavinnustofu sem Tjarnarbíó býður upp á fyrir sviðshöfunda. Gripahúsið er svört kómedía og samfélagsrýni sem fjallar um þá hringrás staurblindrar bjartsýni og hruns sem við sjáum birtast í þjóðfélaginu trekk í trekk.

Verkið fjallar um einstæðu móðurina Védísi og þrjú uppkomin börn hennar sem hírast í fátækt á leigubýli lengst uppi á heiði, með flatskjá og ferðabæklinga sér til huggunar. Þrátt fyrir að allt virðist ganga á afturfótunum hjá fjölskyldunni með tilheyrandi gjaldþrotum og kennitöluflakki þá eru þau samt full af bjartsýni um betri tíma og í sífelldri leit að skyndilausnum til þess að finna hamingjuna.

„Þetta er allt spurning um að vera til í slaginn á réttum tíma, þegar tækifærin banka upp á“

Hlutverk eru í höndum Bryndísar Petru Bragadóttur, Alberts Halldórssonar, Sigríðar Bjarkar Baldursdóttur og Sveins Óskars Ásbjörnssonar.

Bjartmar leikstýrir verkinu sjálfur en hann á að baki langan feril sem leikstjóri, leikari og dramatúrg. Meðal leikstjórnarverkefna má nefna Hundalógík í Þjóðleikhúskjallaranum, Glerlaufin á Norðurpólnum og Mr. Kolpert í Greenwich Playhouse, London. Einnig hefur Bjartmar leikstýrt fjölmörgum áhugasýningum. Hann hefur samið þónokkrar leikgerðir fyrir áhugaleikhús og unnið sem dramatúrg í atvinnuleikhúsi, t.d. fyrir sýningarnar (90)210 Garðabær og Segðu mér satt í Þjóðleikhúsinu. Bjartmar hefur líka unnið við þýðingar og yfirlestur skáldsagnahandrita undanfarin ár. Gripahúsið er fyrsta leikverk Bjartmars sem sett er upp í atvinnuleikhúsi.

Gripahúsið verður frumsýnt föstudaginn 26. febrúar kl. 20:30 og standa sýningar til 13. mars.

Miðasala fer fram á midi.is. Tekið er við pöntunum í netfangið midasala@tjarnarbio.is.