Þjóðleikhúsið frumsýnir nýtt íslenskt barnaleikrit næstkomandi sunnudag, þann 23. september kl 13:30. Verkið Gott kvöld, eftir hina vinsælu bókverkakonu Áslaugu Jónsdóttur, verður fyrsta sýning leikársins í Kúlunni. Áslaug byggir leikritið á samnefndri bók sinni sem kom út fyrir tveimur árum, en hún hefur unnið verkið að nýju fyrir leikhús og meðal annars samið nýja söngtexta fyrir sýninguna. Tónlist gegnir veigamiklu hlutverki í sýningunni en hana semur Sigurður Bjóla.


Þegar pabbi skreppur frá til að sækja mömmu er strákur aleinn heima með bangsa sér til halds og trausts. En það er hægara sagt en gert að hughreysta bangsa sem óttast óboðna gesti eins og Hrekkjasvínið, Hræðslupúkann, Tímaþjófinn, Frekjuhundinn og ótal fleiri furðuskepnur.
 
Áslaug Jónsdóttir hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum fyrir barnabækur sínar og myndskreytingar í barnabókum. Bækur Áslaugar hafa verið þýddar yfir á fjölmörg tungumál og hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Meðal annars hefur hún hlotið ýmis verðlaun fyrir Gott kvöld, Dimmalimm verðlaunin –  íslensku myndskreytiverðlaunin, verðlaun bóksala fyrir bestu barnabók ársins og Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur. Áslaug var tilnefnd til Norrænu Barnabókaverðlaunanna fyrir Gott kvöld árið 2006.
 
Sigurður Bjóla hefur starfað við Þjóðleikhúsið sem hljóðmaður um árabil og haft með höndum hljóðstjórn margra sýninga hér. Hann hefur einnig samið tónlist fyrir leiksýningar í Þjóðleikhúsinu og Nemendaleikhúsinu, unnið við upptökur fjölmargra hljómplatna og samið tónlist af ýmsu tagi, meðal annars með Spilverki þjóðanna á sínum tíma.
 
Kúlan er nýtt leiksvið sem var opnað í Þjóðleikhúsinu á síðasta leikári. Í Kúlunni eru sýndar leiksýningar sérstaklega ætlaðar yngstu leikhúsgestunum. Gott kvöld er fyrsta leikverkið sem samið er sérstaklega fyrir Kúluna en sýningin er einkum hugsuð fyrir áhorfendur á aldrinum 3-10 ára. 
 
Leikstjóri sýningarinnar er Þórhallur Sigurðsson en um búninga, brúðugerð og skuggaleikhús sér Helga Arnalds. Áslaug Jónsdóttir hannar leikmynd. Leikarar í sýningunni eru Baldur Trausti Hreinsson, Vignir Rafn Valþórsson og Þórunn Erna Clausen.