Hugleikur
Einkamál.is
Leikstjórar: Hulda Hákonardottir og Þorgeir Tryggvason
 

einkamal.is2Hugleikur fumsýndi á föstudag  leikritið Einkamál.is  eftir Árna Hjartarson.  Það er skemmst frá að segja að Hugleikur sannar það enn einu sinni að leikfélagið er í fremstu röð þegar kemur að því að setja á svið ný íslensk leikverk. Verk Árna er í senn fyndið og harmrænt í eindfaldri sögu í anda  klassískra  grískra leikbókmennta. Ég ætla ekki að ljóstra upp aðalfléttu verksins sem er alveg stórskemmtileg og óvænt og drífur verkið áfram af fítonskrafti.

Árni hefur skapað verk sem er bæði tímalaust og tekst á við samtíðarmál eins  og  staðgöngumæður og firringu nútímafjölskyldunnar.  Það er þó ekki stigið þungum skrefum, fyndnin er allsráðandi og á  frumsýningunni var mikið hlegið. Gott verk hjá  Árna.

Leikstjórn verksins er fumlaus hjá þeim Huldu Hákonardóttur og Þorgeiri Tryggvasyni. Þau þjóna vel innihaldi verksins og stjórna leikurum af röggsemi. Nýting á rými í leikhúsi  þeirra Hugleiksmanna er alveg frábær og þjónar verkinu mjög vel. Leikmyndin er einkar vel hugsuð og skipting á milli rúms og tíma er vel útfærð.

Leikhópurinn í sýningunni er afar góður og má þar fremstan telja Rúnar Lund sem á sannkallaðan stjörnuleik í burðarhlutverki verksins þar sem honum tekst á frábæran hátt að sýna manni persónu sem er bæði harmræn um leið og hún er fyndin. Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Einar Þór Einarsson og Júlía Hannam voru líka mjög góð sem nútíma fjölskyldan. Aðrir leikar stóðu sig vel og var gaman að sjá aftur á sviði Hrund Ólafsdóttur sem gerði garðinn frægan fyrir nokkrum árum og hún gerði Gleymérei góð skil.

Það er vert að óska Hugleik til hamingju með uppsetninguna á þessu verki  Árna Hjartarsonar  og ég hika ekki við að gefa þeim 4 stjörnur fyrir afar ánægjulega leikhúsferð á Grandann.

Lárus Vilhjálmsson