Kómedíuleikhúsinu á Ísafirði hefur verið boðið á einleikjahátíðina Albamono í Albaníu með leikinnn Gísli Súrsson. Um er að ræða alþjóðlega leiklistarhátíð sem fer fram dagana 21. – 25. maí næstkomandi. Albamono er haldin í Korce í Albaníu og er þetta í annað sinn sem hátíðin er haldin og verður Gísli Súrsson sýndur á íslensku. Þetta er í þriðja sinn sem Kómedíuleikhúsið sýnir Gísla Súrsson erlendis. Haustið 2006 var leikurinn sýndur á leiklistarhátíðinni Integra í Hannover þar sem Gísli vann til verðlauna.

Fyrir skömmu var Gísli síðan á ferðinni í Lúxembúrg þar sem hann var bæði leikinn á ensku og íslensku. Það er óhætt að segja að mikill spenningur sé fyrir einleiknum Gísla Súrssyni á erlendri grundu.

Kómedíuleikhúsinu hefur borist fjölmörg boð m.a. frá Makadóníu og Hvíta Rússlandi en því miður var ekki hægt að þekkjast þau góðu boð. Þó hefur Kómedíuleikhúsið þegið boð frá leiklistarhátíð í Úkraínu á næsta ári. Það er því óhætt að segja að Kómedíuleikhúsið og Gísli Súrsson séu í mikilli útrás þessa dagana.
Það eru þeir Elfar Logi Hannesson og Jón Stefán Kristjánsson sem eru höfundar leiksins um útlagann Gísla Súrsson. Elfar Logi leikur og Jón Stefán leikstýrir. Að lokum má geta þess að Gísli Súrsson verður sýndur í allt sumar um land allt bæði á íslensku og ensku. En leikurinn hefur nú þegar verið sýndur yfir 140 sinnum.

{mos_fb_discuss:2}