Þjóðleikhúsið kynnir sérstæða franska gestasýningu Etabl´île í Kúlunni á mánudagskvöldið 16. apríl kl. 20.00. Aðeins er um þessa einu sýningu í Þjóðleikhúsinu að ræða og því fágætt tækifæri fyrir leikhúsáhugafólk en Turak hópurinn undir stjórn Michael Laubu hefur getið sér gott orð víða um heim.

Hér er á ferðinni sérstæð leiksýning einskonar ævintýraferð um töfraveröld þar sem ómælisvídd ímyndunaraflsins ræður ríkjum í sýningu sem er mitt á milli þess að vera brúðuleikhús og leikhús hlutanna. Sumir hafa viljað kalla leikhús af þessu tagi “víðavangsleikhús”.

Michel Laubu er einkar ötull tilraunamaður í leikhúsi en hann semur og leikstýrir verkum Turak hópsins en við flutninginn nýtur hann aðstoðar Emili Hufnagel, Emmeline Beaussier og Charly Frénéa. Laubu hefur einsett sér að vekja aftur til lífsins hið smáa færanlega leikhús sem getur slegið upp tjöldum sínum nánast hvar sem er, leikhús sem tekur mið af umhverfi sínu í hvert sinn.

Hvert atriði er byggt upp af mörgum lögum og hægt að skynja það og túlka á margvíslegan hátt án þess að vera torskilið. Þvert á móti eru sýningar Turaks hannaðar með það fyrir augum að ná til sem flestra áhorfenda.
Turak hópurinn sýnir reglulega í Frakklandi en hefur ferðast víða um heim með sýningar og sótt leiklistarhátíðir í Damaskus, Istanbul, Belgíu, Laos og Portúgal svo fáir staðir séu nefndir.

Þessi franski leikhópur mun koma fram víða um land: í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði, Selfossi, Hafnarfirði, Grundarfirði og í Borgarnesi, á litlum samkomustöðum þar sem nánd er mikil milli leikara og áhorfenda. Þessi nánd er leikhústöfrunum lífsskilyrði.
Ætlun hans er að ljúka ferðalaginu um Ísland með uppsetningum í íbúðarhúsum í Reykjavík. Umfang sýninga og áhorfenda miðast við hvern stað fyrir sig. Þetta fyrirkomulag hentar vel hinum íslenska lífsmáta og greiðir leið fyrir tengingu leikara og áhorfenda
Sýningin er skipulögð af Alliance Francais og er hluti af menningardagskránni Pourquoi pas? – Franskt vor á Íslandi.

  {mos_fb_discuss:2}