Meðlimir Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafa sl. aldarfjórðung rekið leikhópinn Fire and Ice Theatre. Fulltrúi Leiklistarvefsins heimsótti leikhópinn og fékk að fylgjast með upptökum á tveimur útvarpsleikritum tengdum jólunum sem útvarpað verður uppi á velli síðar í vikunni.

Vandfundið er það bæjarfélag hér á landi þar sem ekki má finna starfandi áhugaleikfélag sem sett hefur upp leiksýningar árlega jafnvel síðustu áratugina, ef ekki lengur. Þess vegna hefði það ekki átt að koma undirrituðum á óvart að komast að því fyrir skemmstu að hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli væri starfandi blómlegur áhugaleikhópur, Fire and Ice Theatre, enda minnir samfélagið á Keflavíkurflugvelli um margt á lítinn smábæ. Eftir því sem blaðamaður kemst næst er samfélagið á Keflavíkurflugvelli um margt óvenjulegt miðað við aðra hervelli að því leyti að yfirleitt búa liðsmenn ekki allir inni á herstöðinni eins og hér er, en á móti virðist það skapa heilsteyptara samfélag þar sem ríkjandi er þægileg smábæjarstemning með mikilli þátttöku í alls kyns íþrótta- og tómstundastarfi, sem og skóla- og kirkjustarfi.

Image

Kát að loknum upptökum.

Bregður fyrir í íslenskum og erlendum kvikmyndum

Aðspurð tekur Cheryl Stevens, sem situr í stjórn Fire and Ice Theatre og er einn helsti drifkraftur starfsins nú um stundir, undir það að ekki fari mikið fyrir starfi leikhópsins utan vallar, enda sýningar hópsins sýndar inni á herstöðinni og því ekki aðgengilegar utanaðkomandi nema í undantekningartilvikum. Það er helst að almenningur geti séð leikurum úr leikhópnum bregða fyrir í kvikmyndum á borð við mynd Baltasars Kormáks A Little Trip to Heaven eða Clint Eastwood-myndinni Flags of Our Fathers sem teknar voru upp hérlendis. „Við höfum verið í samstarfi við íslensk kvikmyndafyrirtæki, m.a. Pegasus, sem leitað hafa til okkar þegar þörf er fyrir ameríska aukaleikara eða, eins og í tilfelli Clint Eastwood-myndarinnar, karlmanna sem líta út eins og raunverulegir hermenn,“ segir Cheryl Stevens, sem sjálf er ein þeirra hundruð borgaralegu starfsmanna Varnaliðsins sem búa og starfa á Keflavíkurflugvelli. Stevens er barnaskólakennari og hefur verið búsett hér á landi sl. þrettán ár, en hóf fyrst að starfa með Fire and Ice Theatre fyrir rétt rúmu ár.

Að sögn Stevens gengur misvel að halda starfi leikfélagsins úti, ekki síst sökum þess að yfirgnæfandi fjöldi Varnarliðsmanna staldrar stutt við í hvert skipti. Yfirleitt dvelja Varnarliðsmenn hér í allt frá viku og upp í 18 mánuði séu þeir einir á ferð, en óski þeir eftir því hafa fjölskyldu sína hjá sér er dvalartíminn tvö til þrjú ár. Borgaralegir starfsmenn á borð við kennarar geta hins vegar dvalið hér árum saman, ef svo ber undir. „En það stendur starfinu nokkuð fyrir þrifum hversu ör skipti verða í leikhópnum,“ segir Stevens og nefnir sem dæmi að meirihluti þess stóra hóps sem þátt tók í uppsetningu leikhópsins á fjölmennum söngleik sl. vor, er nefnist You´re a Good Man Charlie Brown eftir Clark Gesner og byggir líkt og nafnið gefur til kynna á teiknimyndunum um Smáfólkið, sé farinn af landi brott.

Aðspurð um verkefnaval leikhópsins segir Cheryl Stevens það annars vegar taka mið af því hvaða mannskapur sé fyrir hendi sem og því hvað félagsmenn langi til að gera, en hópurinn hefur í tímans rás spreytt sig á ýmsum tegundum verka, s.s. sakamálaleikritum, söngleikjum auk þess að reka nokkurs konar kaffileikhús. Spurð hvernig þau fjármagni starf sitt segir hún það gert með ýmsum hætti, enda geti leikfélagið ekki leitað styrkja neins staðar. „Við höldum kökubasar, bjóðumst til þess að sjá um andlitsmálningu á ýmis konar skemmtunum auk þess sem miðasalan þarf að standa undir stórum hluta starfsins,“ segir Cheryl Stevens.

Veitir ekki af meiri mannskap
Þegar blaðamaður lagði leið sína á Keflavíkurflugvöll fyrr í mánuðinum var leikhópurinn að fara í upptökur á tveimur útvarpsleikritum tengdum jólunum, annars vegar Twas the Night Before Christmas eftir Clement Clarke Moore, sem hvert einasta barn í Bandaríkjunum þekkir og kann nánast utanað enda fjallar verkið um eftirvæntingarfulla bið barns eftir jólunum, og hins vegar The Christmas Truce eftir Aaron Shepard þar sem sannsögulegur viðburður úr fyrri heimstyrjöldinni er til umfjöllunar. „Þetta er í fyrsta skiptið sem við prófum að leiklesa í útvarpi, en við vonumst til þess að þetta veki áhuga á starfsemi leikhópsins meðal Varnarliðsmanna og að fleiri gangi til liðs við okkur,“ segir Stevens og bætir við: „Enda veitir okkur ekki af meiri mannskap.“ Aðspurð segir hún leikhópinn frekar lítinn, eða í kringum tuttugu manns, en auk þess sé nokkuð stór hópur sem leggur hópnum lið með því að smíða leikmynd, sauma búninga og selja miða. En hvað fær þennan hóp til þess að eyða dýrmætum frítíma sínum í æfingar þann stutta tíma sem þau dvelja hér á land?. Því er að mati Cheryl Stevens og annarra í leikhópnum auðsvarar: „Það er svo gaman að sjá allt ganga upp og finna hvernig erfiði æfingatímabilsins skilar sér á leiksviðið.“