Popup-leikhúsið Uppsprettan verður haldið fjórum sinnum í Tjarnarbíói í vetur og sú fyrsta verður mánudagskvöldið 22. september næstkomandi.

Uppsprettan gengur þannig fyrir sig að höfundar senda inn stuttverk sem aldrei hefur verið flutt áður. Sex manna dómnefnd fer svo yfir handritin og velur þrjú bestu handritin. Sólarhring fyrir frumflutning fá leikstjórar handritin í hendur.

Um leið fá þeir einnig að vita hvaða rými þeir eru að vinna með og hvaða leikhóp. Þeir hafa svo daginn til að hanna uppsetninguna og finna til props, búninga, eða hvað sem þeir vilja nota við uppsetninguna, og leysa út úr þeim áskorunum sem felast í handritinu, rýminu og/eða leikhópnum. 

Leikararnir fá handritin einnig í hendurnar sólarhring fyrir sýningu,til að kynna sér verkið og kynnast textanum, en handrit eru leyfð á sviði. Kvöldið eftir, einungis þremur klukkutímum fyrir frumflutning, byrja leikstjórarnir að  vinna með leikurunum í æfingarýmum og fá þá gestir og gangandi tækifæri til að fylgjast með æfingunum. Klukkan 21.00 er svo útkoman sýnd og er ótrúlegt að verða vitni að því sem leysist úr læðingi. 

Eftir sýninguna á verkunum er áhorfendum boðið upp á að spyrja listamennina út í verkin, uppsetningarnar, ákvarðanir og aðferðir.  

Meiri upplýsingar finnast á Fésbókarsíðu verkefnisins – www.facebook.com/uppsprettan