Leikfélag Flateyrar var endurvakið eftir nokkurn dvala á síðasta ári og frumsýndi í gær sína fyrstu leiksýningu í hátt í áratug. Hassið hennar mömmu eftir Nóbelsskáldið Dario Fo varð fyrir valinu sem fyrsta sýning hins endurvakta leikfélags. Sýningin er sprenghlægilegur farsi sem gerist á Ítalíu 1976 og eru leikararnir allt ungir og upprennandi nýir Flateyringar sem hafa gengið í Lýðskólann á Flateyri síðustu ár. Tugir Flateyringa og velgjörðarmanna hafa lagt hönd á plóg til að láta sýninguna a verða að veruleika og er útkoman lífleg og skemmtileg sýning sem kitlar hláturtaugarnar. Leikstjórann er fenginn úr næsta firði, en það er enginn annar en Elfar Logi Hannesson, leikari sem starfrækt hefur Kómedíuleikhúsið, eina atvinnuleikhús Vestfjarða svo árum skiptir. Sýningarnar verða fjórar talsins yfir páskana. Miðasala er á Tix.is og nánari upplýsingar er að finna á Facebooksíðu félagsins.