Tjarnarbíó frumsýnir nýtt, íslenskt leikverk, Fyrirgefðu ehf. föstudaginn 14. febrúar. Höfundurinn og leikstjórinn Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Málamyndahópurinn bjóða í ferðalag með Evu og félögum hennar hjá Fyrirgefðu ehf. þar sem fyrirgefningin er skoðuð ofan í kjölinn. Hvaða þýðingu hefur fyrirgefningin raunverulega? Er alltaf rétt að fyrirgefa? Eða er sumt ófyrirgefanlegt? Fyrirgefum við eingöngu í því skyni að létta á okkur sjálfum?

Fyrirgefðu ehf. er fyrirtæki sem býður hreina samvisku og fyrirgefningu í hverskyns deilumálum. Þegar aðalsöguhetjan Eva hefur störf hjá fyrirtækinu er henni kennt Lögmálið að fyrirgefningunni, sem sannreynt hefur verið í tugþúsundum tilvika um allan heim. Þjónusta fyrirtækisins er dýrkeypt og Eva fær það hlutverk að velja úr innsendum umsóknum fólks sem leitast við að fyrirgefa framhjáhald, alkahólisma, þverum stjórnmálamönnum, tvöföldum trúarleiðtogum, Guði og síðast en ekki síst: Sjálfu sér.

Í verkinu má heyra sögur byggðar á rúmlega sjötíu viðtölum sem Málamyndahópurinn tók við fólk á aldrinum 5-85 ára. Afraksturinn er þverskurður af stórum og smáum fyrirgefningum úr íslenskum raunveruleika, sem lætur engan ósnortinn. Fyrirgefðu ehf. veltir upp áleitnum spurningum um fyrirgefninguna í markaðsvæddum heimi.

Leikendur eru: Árni Pétur Guðjónsson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Víðir Guðmundsson og Þóra Karítas Árnadóttir.

Höfundur: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Sviðsmynd: Rebekka A. Ingimundardóttir. Sviðshreyfingar: Ólöf Ingólfsdóttir. Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson. Búningahönnun: Eleni Podara. Tónhönnun: Jarþrúður Karlsdóttir. Framkvæmdastjórn: Höskuldur Sæmundsson. Leikstjórn: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir.

Skemmtileg kynningarmyndbönd frá Fyrirgefðu ehf. má finna á YouTube rás „fyrirtækisins“.

Ýmsar frekari upplýsingar fást á www.tjarnarbio.is, www.fyrirgefduehf.is og á Facebook-síðu Fyrirgefðu ehf.

Með hverjum keyptum miða fæst 30% afsláttur af smáréttum, mat og drykk á Vínbarnum fyrir sýningar.