Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga,
haldinn að Hótel Hlíð í Ölfusi laugardaginn 6. maí 2017

Fundur settur kl. 9.00

1. Fundarsetning. Kosning 2ja fundarstjóra og 2ja fundarritara, sem taka þegar til starfa. Lögmæti fundarins kannað.

Hulda Gunnarsdóttir frá Leikfélagi Ölfuss og Magnús J. Magnússon frá Leikfélagi Selfoss eru skipaðir fundarstjórar og Salbjörg Engilbertsdóttir frá Leikfélagi Hólmavíkur og Jónheiður Ísleifsdóttir Leikfélagi Selfoss eru skipaðar fundarritarar. Lögmæti fundarins sannreynt.

2. Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum.

Dýrleif Jónsdóttir, Hugleik talar fyrir hönd kjörnefndar og dreifir atkvæðum til fundarmanna.

3. Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd.

Embla Guðmundsdóttir, Umf. Reykæla, las hana fyrir fundargesti. Engar umræður voru um Menningarstefnuna.

Í framhaldi af kynningunni stóðu fundargestir upp og kynntu sig.

4. Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá.

Þráinn Sigvaldason, Leikfélagi Hörgdæla, kynnti að Leikklúbburinn Krafla í Hrísey og Leikfélag Bolungarvíkur hefðu gengið úr Bandalaginu á leikárinu en engin starfsemi hefur verið undanfarið hjá þessum félögum. Leikdeild Ungmennafélags Stafholtstungna gekk í Bandalagið.

Eftir þetta eru félögin samtals 53 talsins.

5. Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd.

Fundarstjóri bar hana upp. Samþykkt.

6. Skýrsla stjórnar.

Guðfinna formaður flytur:

Skýrsla stjórnar Bandalags íslenskra leikfélaga á aðalfundi í Hótel Hlíð, Ölfusi 6. maí 2017

I. Stjórn

Á starfsárinu skipuðu stjórn þau:
Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi, formaður
Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ, varaformaður
Þráinn Sigvaldason, Hörgárdal, ritari
Bernharð Arnarsson, Hörgárdal, meðstjórnandi
Gísli Björn Heimisson, Reykjavík, meðstjórnandi.

Í varastjórn sátu:
Þrúður Sigurðardóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir, Ágúst T. Magnússon, Embla Guðmundsdóttir og Sigríður Hafsteinsdóttir.

Framkvæmdastjóri og altmuligmanneskja í Þjónustumiðstöð er og var sem endranær Vilborg Valgarðsdóttir.

Stjórn hélt fjóra starfsfundi á árinu. Einn að afloknum aðalfundi á Seyðisfirði og þrjá í þjónustumiðstöð okkar í Reykjavík. Fjarfundarbúnaður var notaður endrum og sinnum með góðum árangri þegar ritari vor Þráinn átti ekki heimangengt. Einnig hafa símtæki, fésbókarhópur og tölvupóstur verið nýtt til góðra samskipta stjórnarmanna árið um kring.

Ármann Guðmundsson var svo vænn að leysa Vilborgu af í Þjónustumiðstöð vegna veikinda eða leyfa.

Er starfsfólki og stjórn þökkuð góð samvinna og vinnusemi á árinu.

II. Starfsemi félaganna

36 aðildarfélög Bandalagsins sendu inn styrkumsóknir fyrir alls 112 leiksýningar og leikþætti, 25 námskeið og 29 skólanemendur fyrir leikárið 2015-2016. Fullur styrkur reyndist vera 273.839 krónur. Ársritið okkar inniheldur síðan allar frekari upplýsingar um starfsemina. Ekki liggja fyrir tölur um umfang starfsins á þessu leikári en engin ástæða til að ætla annað en það sé svipað og verið hefur. Félögin í Bandalaginu eru nú 53 talsins.

III. Starfsáætlun

Á síðasta aðalfundi var að venju samþykkt starfsáætlun og og verður nú farið yfir hana og sagt frá hvað gert var til að efna einstaka liði hennar.

1.Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Rekstur þjónustumiðstöðvar er alltaf í járnum, en Vilborg framkvæmdastjóri er ótrúlega útsjónarsöm og heldur fast og vel utan um reksturinn með sinni styrku stjórn eins og sjá má í reikningum Bandalagsins sem kynntir verða hér á eftir.

Um skólann og vefinn munu fulltrúar viðkomandi nefnda fjalla í sínum skýrslum.

Nýtt rafrænt umsóknarkerfi hefur nú verið keyrt einu sinni og verða framvegis allar umsóknir afgreiddar í gegnum þetta kerfi sem mun gera alla umsýslu greiðari og auðveldari fyrir bæði félögin og skrifstofuna.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Framlag til starfsemi áhugaleikfélaganna er nú 16,2 milj. kr. Til þjónustumiðstöðvarinnar er framlagið 6 milj. kr. á ári samkvæmt samningi sem gildir til loka ársins 2018. Við bíðum spennt eftir því að hitta nýjan ráðherra menningar og munum freista þess að kynna okkar málefni fyrir honum á haustdögum. Eftir áramót þurfum við svo að vinna að endurnýjun samnings vegna reksturs skrifstofunnar.

Sérverkefni ársins

1. Að haldið verði námskeið í stjórnun leikfélaga og markaðssetningu samhliða aðalfundi 2017.

Téð námskeið var haldið í gærkvöldi hér á Hótel Hlíð. Það gekk mjög vel.

2. Að halda afmælishátíð í tilefni af 20 ára afmæli Leiklistarskóla Bandalagsins vorið 2017.

Hátíðin fór fram laugardaginn 18. mars í Hlégarði í Mosfellsbæ. Þangað mættu fyrrum nemendur og kennarar, átu, drukku, rifjuðu upp og voru glöð. Er skólanefndarmeðlimum þakkað fyrir alla vinnu við hátíðina.

IV – Önnur mál

Uppfærsla Leikfélags Hafnarfjarðar á Ekkert að óttast eftir 12 höfunda úr höfundasmiðju LH var valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins af valnefnd Þjóðleikhússins og var hún sýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 4. júní við góðan orðstír. Í ár eru sýningarnar tólf sem valið verður milli og mun fulltrúi Þjóðleikhússins tilkynna um það undir borðum í Hlíð í kvöld.

Af erlendum vettvangi má geta þess að sýning Leikfélags Hafnarfjarðar, Ubbi kóngur, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur var valin til sýningar á stórri leiklistarhátíð í Austurríki liðið sumar og var sýningunni hrósað mjög. Þess ber einnig að geta að Ubbi kóngur var einnig valin til þátttöku á IATA/AITA alþjóðlegu leiklistarhátíðinni í Mónakó sem fer fram seinni hluta ágústmánaðar. Formaður og framkvæmdastjóri munu sækja aðalfund IATA/AITA í Mónakó, en fundurinn er gríðarlega mikilvægur þar sem lögð verður fram heildarbreyting á lögum samtakanna og mikilvægt að okkar rödd heyrist þar. Á sama tíma verður einnig ársfundur NEATA.

Hafnfirðingar tóku einnig þátt í stuttverkahátíð NEATA sem haldin var í Færeyjum í október, þar fluttu þau verkið Dimmalimm við mikinn fögnuð áhorfenda. Undirrituð getur borið þessu vitni, en formaður sat ársfund NEATA á téðri stuttverkahátíð, en hátíðin var stórskemmtileg, Eystrasaltsríkin tóku þátt og voru spennt að takast á við stuttverkaformið sem og hópar frá Færeyjum, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Skemmtilegt hefði verið ef að fleiri félög frá okkur hefðu verið með, þar sem stuttverkahefðin sprettur úr okkar ranni og aðrir hafa fylgt á eftir. Gerum meira næst.

Fundurinn fór mikið í umræður um fyrrnefndar breytingar á lögum IATA/AITA, en einnig var rætt um vandræði Norðmanna, en þeirra Bandalagsskrifstofa lokaði, það stendur til bóta. Einnig hafa Skotar lýst yfir áhuga á að ganga til liðs við NEATA, það væri skemmtilegt að fá þá inn í samtökin.

María Björt Ármannsdóttir er fulltrúi okkar í NEATA Youth og mun sækja fund fyrir okkar hönd í Helsinki núna síðar í maímánuði.

Þakka ber Lénsherra fyrir frábært starf nú sem endranær, hans vökula auga sér til þess að við náum að halda í við nýjustu tækni og passar að við séum uppdeituð og vistuð.

Skólinn heldur áfram að þróast og flytur sig um set í ár að Reykjaskóla í Hrútafirði. Við kveðjum Húnavelli, Svínavatn og Reykjanibbu. Á næsta ári verða komin ný kennileiti. Flutningum fylgir spenna og ánægja, en þeir fela einnig í sér aukavinnu fyrir skólanefndarfólk og er þeim og skólastýrum þakkað fyrir vinnuna í ár og aftur til hamingju með afmælið. Við erum óendanlega stolt af skólanum og vinnunni sem þar fer fram.

Stjórn þakkar ennfremur Vilborgu framkvæmdastjóra fyrir frábært samstarf á árinu.

Það er gott og gagnlegt að líta um öxl og sjá hvað félögin hafa verið að gera á árinu með því til dæmis að fletta í gegnum fréttir á heimasíðunni okkar og sjá hvílík fjölbreytni og sköpunargleði sprettur fram í öllum landshornum. Leikfélög sem legið hafa í dvala hafa lifnað við eftir hlé, á meðan önnur taka sér pásu. Svona gengur þetta. Krafturinn er ykkar. Þar sem er fólk, þar er hægt að skapa.

Við hvetjum ykkur til að leita til skrifstofunnar og okkar stjórnarmanna með hvað eina sem þið eruð að velta fyrir ykkur varðandi starfið.

Leikum áfram – alltaf meira – aldrei að hætta.

Guðfinna Gunnarsdóttir formaður.

7.  Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.

Vilborg Valgarðsdóttir kynnti reikningana. Tap á eiginlegum rekstri var kr. 200.024 eða kr. 234.769 minni en árið áður.

8. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.

Elli frá Leikfélagi Selfoss spyr hvert stefni, hvort við séum á leið í höfn eða hvort þetta verði svona næstu árin. Vilborg segist ekki vita það en að blikur á lofti séu í húsnæðismálum.

Gísli Björn frá Leikfélagi Hafnarfjarðar kom með þá hugmynd að selja vörur á tilboði sem eru að renna út á dagsetningu.

Kjörnefnd afgreiðir kjörseðla.

Skýrsla stjórnar samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.

Reikningar BÍL samþykktir samhljóða.

9. Skýrslur nefnda og umræður um þær.

Hrefna Friðriksdóttir flytur skýrslu skólanefndar Bandalagsins:

Skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 6.-7. maí 2017

Á liðnu starfsári sátu með mér í skólanefnd Dýrleif Jónsdóttir, Herdís Þorgeirsdóttir, Hrund Ólafsdóttir og Gísli Björn Heimisson. Skólanefndin ber sem fyrr höfuðábyrgð á að skipuleggja starf Leiklistarskóla Bandalagsins og fundar reglulega allt árið. Ég nota þetta tækifæri til að þakka kærlega öllu samnefndarfólki mínu fyrir metnaðarfullt og skemmtilegt samstarf.

Leiklistarskóli Bandalagsins var settur í 20. sinn þann 4. júní 2016 að Húnavöllum í Húnavatnshreppi. Skólann árið 2016 sóttu alls 43 nemendur. Námskeiðin voru:

1. Leiklist I – kennari Ágústa Skúladóttir
2. Leikstjórn II – kennari Rúnar Guðbrandsson
3. Sérnámskeið fyrir leikara – kennari Stephen Harper frá Bretlandi.

Niðurstöður viðhorfskönnunar bentu eins og oftast áður til mikillar ánægju með skólastarfið.

Til að fagna 20 árunum var fyrrverandi skólastýru og skólanefndarfólki boðið í heimsókn í skólann. Til að gefa fleira fólki tækifæri til að gleðjast af þessu tilefni var blásið til sérstakrar afmælishátíðar Leiklistarskólans þann 18. mars í Hlégarði í Mosfellsbæ. Kom þar saman dágóður hópur og naut þess að rifja upp ljúfar minningar um gott skólastarf.

Þegar við fengum tilboð frá hótelhaldara að Húnavöllum fyrir árið 2017 blasti við mikil hækkun skólagjalda, sérstaklega á þeim tíma sem við töldum henta skólanum best. Nú er rekin gistiaðstaða allt árið um kring á Húnavöllum og þar hefur aukist mikið ferðamannastraumurinn eins og annars staðar á landinu. Hugmynd kviknaði um að flytja í Reykjaskóla í Hrútafirði, við brunuðum á staðinn og náðum hagstæðum og farsælum samningum við staðarhaldara. Í Reykjaskóla eru reknar skólabúðir fyrir grunnskólanemendur allan veturinn, staðarhaldari kærir sig ekki um reka hótel á sumrin en vill gjarnan taka á móti hópum og ekki síst sama hópnum ár eftir ár. Þarna er mikið og gott gistirými, ágætt kennslurými og fín aðstaða að flestu öðru leyti, t.d. sundlaug, heitir pottar og gufubað. Aðstaða fyrir fatlað fólk er ekki fullkomin en þó að mörgu leyti betri en að Húnavöllum.Við teljum okkur einstaklega heppin að hafa fundið þennan stað og horfum björtum augum fram á að geta verið þarna næstu árin.

Árið 2017 verður Leiklistarskólinn sem sagt settur í Reykjaskóla þann 12. júní. Skólasetning er á mánudagsmorgni að þessu sinni og skólaslit á þriðjudegi vikunni á eftir. Þetta er óvenjulegur tími sem ræðst af þeim stutta fyrirvara sem við höfðum til stefnu. Okkur finnst spennandi að prófa þetta en höldum því opnu að fara aðrar leiðir að ári liðnu ef það er talið gefast betur. Í sumar er boðið upp á þrjú námskeið:

Ágústa Skúladóttir mun kenna Leiklist II – þar eru skráðir 10 nemendur og við viljum gjarnan bæta við fleirum – hvetjum alla viðstadda til að íhuga það vandlega hvort það eru ekki einhverjir leikfélagar sem eiga erindi á þetta námskeið. Í þessu samhengi langar mig að geta þess að skólanefndin ákvað fyrir nokkrum árum að bregðast við áskorun um að hafa þéttari grunnnámskeið í leiklist – það er leiklist I og leiklist II til skiptis. Þetta höfum við gert frá 2010 og í ár því lokið 4 svona hrinum. Nú veltum við því fyrir okkur hvort ástæða er til að hægja á aftur og það er í umræðunni að bjóða ekki upp á leiklist I sumarið 2018. Þá gefst á móti tækifæri til að vera með fjölbreyttari sérnámskeið fyrir lengra komna en það virðist töluverð eftirspurn eftir slíkum námskeiðum. Það væri gaman að fá viðbrögð við þessu.

Rúnar Guðbrandsson mun stýra masterclass námskeiði í leikstjórn í sumar – þar eru skráðir 13 nemendur og hægt að bæta 1 við.

Þorsteinn Backmann kemur til okkar í fyrsta sinn og býður upp á sérnámskeið fyrir leikara með áherslu á sjálfstæði og frumsköpun leikarans – þar eru skráðir 15 nemendur og til greina kemur að bæta 3 við.

Þá bjóðum við höfundum að koma í heimsókn og eigum von á alls 7 skapandi skrifurum.

Hér lýkur þá skýrslu skólanefndar sem hlakkar mikið til að móta skólastarfið á nýjum og spennandi stað! Takk fyrir.

Hrefna Friðriksdóttir.

Mikil ánægja úr sal með nýja staðsetningu skólans að Reykjum í Hrútafirði.

Sigríður Hafsteinsdóttir þakkar skólanefnd fyrir störf sín og hvetur alla sem hafa ekki farið í skólann að koma. Meðal annars Huldu fundarstjóra sem segist aldrei hafa farið.

Hörður Sigurðarson flytur skýrslu vefnefndar Leiklistarvefsins.

Leiklistarvefurinn – Skýrsla vefnefndar 2017
Lögð fram á aðalfundi BÍL í Ölfusi 6.-7. maí 2017

Eftirfarandi er skýrsla vefnefndar Leiklistarvefsins. Í vefnefnd sitja undirritaður og framkvæmdastjóri Bandalagsins.

Engar stórfréttir eru af Leiklistarvefnum að þessu sinni miðað við undanfarin ár og er skýrslan þvi með styttra móti. Undanfarin 2 ár hafa einkennst af mikilli vinnu eftir uppfærsluna stóru sem gerð var árið 2015 og auðvitað ekki síst við nýja umsóknakerfið en minna hefur verið um stórar breytingar í ár. Vefurinn hefur þó verið í sífelldu viðhaldi, þar sem uppfæra þarf kerfið sjálft og allar þær fjömörgu viðbætur sem því fylgja. Kosturinn við nýja kerfið er vitaskuld sá að ekki þarf lengur að kaupa utanaðkomandi til að sjá um allar mögulegar uppfærslur heldur eru þær vanalega tiltölulega einfaldar aðgerðir. Sveigjanleikinn í kerfinu er ótrúleg breyting frá því sem áður var. Kosturinn sem fylgir því að ekki þurfi að kaupa vinnu að utan er þó auðvitað einnig galli þar sem nánast allt er nú gert innanhúss. Viðhald og umsjón tekur mun meiri tíma nú en áður enda er öll virkni og notkun margfalt meiri en áður var.

Mesta vinnan og viðhaldið er í kringum umsóknakerfið sem krefst töluverðs utanumhalds og vinnu. Umsóknakerfi er sennilega óheppilegt orð á þessa viðbót við vefinn og formasmiður væri líklega réttara heiti. Kerfið er nefnilega hægt að nota á ýmsan annan hátt en fyrir umsóknir um ríkisstyrk og Athyglisverðustu áhugaleiksýninguna. Notin eru þó langmest fyrir styrkumsóknirnar og vinnan sem fylgir er í samræmi við það. Reglulega þarf að aðstoða notendur vegna ýmissa vandamála sem eru þó jafnan einföld og auðleyst en taka alltaf einhvern tíma. Nú er ekki lengur hægt að skila inn á gamla mátann og má búast við að þau fáu félög sem ekki voru búin að fá aðgang komi með á næstu vikum. Ekki höfum við heyrt annað en að almenn ánægja ríki með að hægt sé að ganga frá umsóknunum á vefnum í stað pappírsflóðsins sem áður var.

Umsóknirnar skila sér nú inn á til þess að gera einfaldan máta en enn á eftir að leysa nokkur mál sem varða úrvinnsluna. Það er von okkar að hægt sé að fá fram meiri sjálfvirkni í þann hluta þannig að dragi úr þeirri vinnu sem lögð er á framkvæmdastjóra í tengslum við úthlutun.

Að öðru leyti gengur vinna við vefinn sinn vanagang. Vefverslunin skilar t.d. sínu enda heldur Vilborg vel utan um hana þannig að viðskiptavinir geta ávallt séð vöruúrvalið á hverjum tíma. Pantanir eru svipað margar og á síðasta ári. Enn er ekki komið að því að bjóða fólki að geriða á vefnum en að því mun koma.

Oft er það þannig að lítt sýnilegar breytingar eru gerðar á vefnum, breytingar sem fólk almennt tekur ekki eftir. Undanfarna daga kunna einhverjir að hafa séð einhverja hnökra á vefnum en skýringin á því er að loks komum við okkur að því að koma upp HTTPS virkni á vefnum sem var löngu tímabært. Eitthvað er eftir að pússa til vegna þess en væntanlega munu gestir ekki verða þess varir.

Ekki eru miklar breytingar  eða uppfærslur í vændum á vefnum á næsta ári. Eins og alltaf eru allar góðar ábendingar og hugmyndir varðandi Leiklistarvefinn vel þegnar. Á síðasta ári benti undirritaður á að farið væri að slá í ýmislegt í tölvukosti Þjónustumiðstöðvarinnar og þau orð eiga enn við.

Lýkur svo skýrslu Vefnefndar.
F.h. vefnefndar,  Hörður Sigurðarson, lénsherra

Í lok skýrslu segir Hörður frá því að hann hafi búið til svæði á vefnum fyrir myndir frá Bandalagsþingi og auglýsir eftir myndum frá fleirum.

Fundarstjóri (Hulda) auglýsir eftir umræðum um skóla og biður um handauppréttingu frá þeim sem ekki hafa farið. Nokkrar hendur fara á loft. Salur lýsir yfir ánægju við skólann.

Hafrún frá leikfélaginu Grímni spyr hvort skólinn hafi skipulagt tækninámskeið eða hafi áhuga á því. Hrefna svarar að treyst sé á leikfélögin við að halda tækninámskeið í samstarfi við önnur leikfélög. Þar sem tæknibúnaðurinn sem þurfi sé ekki til staðar í skólanum. Hafrún kallar eftir samstarfi við leikfélaga sem á leikhús.

Elli frá Leikfélagi Selfoss spyr hvort sama eigi við um leikmynda og hönnunarnámskeið. Hrefna svara því að það gæti komið til greina að halda alhliða hönnunarnámskeið þar sem það þarfnast ekki sama tæknibúnaðar og gæti komið til greina í stað leiklistarnámskeiðs. Í framhaldi af þessu vekur Hörður máls á því að til sé hópur á facebook um QLAB hugbúnaðinn sem notaður er til að keyra hljóð, mynd og ljós. Þessi hugbúnaður er orðin einráður í tæknimálum í leikhúsum. Hann viðrar möguleikan á því að halda dagsnámskeið í QLAB.

Hulda óskar eftir umræðum um vefinn.

Ólöf frá Leikfélagi Mosfellssveitar talar um hversu ómissandi Hörður er og hversu vinnusparandi nýja styrkjaumsóknarkerfið er og hve hjálpsamur hann er við að veita aðstoð varðandi vefinn. Herði er þakkað fyrir velunnin störf með lófaklappi úr sal.

Stefán Örn veltir upp þeirri hugmynd hvort Bandalagið geti haldið úti sameiginlegu miðasöluvefkerfi og greiðslugátt fyrir leikfélögin í stað þess að hvert leikfélag setji upp sér pöntunarkerfi fyrir sig. Hörður svaraði að það væri góð hugmynd sem vert væri að skoða.

Örn frá Leikfélagi Kópavogs segir frá því að hægt sé að gera samning um sameiginlega greiðslugátt – hvert leikfélag getur svo fengið þær greiðslur sem tilheyra því inn á sinn reikning.

Þráinn lýsir aðdáun sinni á því innra vefkerfi sem Hörður kynnti á námskeiði í stjórnun leikfélaga og spyr hvort hægt sé að skoða það að halda námskeið í vefgerð samhliða næsta aðalfundi. Hörður svara með því að það náist nú kannski ekki að kenna á dýptina

Bernharð hvetur fundarmeðlimi til að gerast áskrifendur að Vikupósti á leiklist.is og nýta sér vefinn. Salur klappar fyrir því.

10. Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa.

Guðfinna kynnir fyrirkomulag starfshópanna. Fundargestum skipt í 4 hópa.

Hópstjórar eru:
Guðrún Halla Jónsdóttir Hugleik – Hópur 1
Gerður Halldóra Sigurðardóttir Leikfélagi Selfoss – Hópur 2
F. Elli Hafliðason Leikfélagi Selfossi – Hópur 3
Axel Vatnsdal Leikfélagi Hörgdæla – Hópur 4

Stjórn leggur til eftirfarandi starfsáætlun fram til umræðu í hópunum:

Tillaga stjórnar að starfsáætlun Bandalags íslendskra leikfélaga leikárið 2016-2017:

Almenn starfsemi:
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

 

11. Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal í.

Engin ný framboð hafa borist.

12. Lagabreytingar.

Engar lagabreytingar liggja fyrir fundinum.

13. Tillögur lagðar fyrir fundinn.

Ólöf Þórðardóttir leggur fram eftirfarandi tillögu:

„Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að 1,5 m. kr. af verkefnastyrk aðildarfélaganna verði látin ganga til rekstrar þjónustumiðstöðvar Bandalagsins.
Fh. stjórnar, Ólöf Þórðardóttir“.

Hún fylgir tillögunni úr hlaði með rökstuðningi og endar á spurningunni „Er þetta nóg?“

Bernharð Arnarsson kom með spurningu um hvað styrkur v. uppsetningar myndi lækka mikið ef að 2.500.000 myndu ganga til reksturs Bandalagsins. Einnig lagði hann til að leikfélögin myndu gera gangskör að kaupum á Sögu Bandalagsins sem nokkur eintök eru ennþá til af.

Axel Vatnsdal og Örn Alexandersson leggja til fram nýja tillögu:

„Við undirritaðir leggjum til að 2,5 m. kr. af verkefnastyrk aðildarfélaganna gangi til rekstrar þjónustumiðstöðvar Bandalagsins.
Axel Vatnsdal
Örn Alexandersson.“

Sigríður Hafsteinsdóttir segir að við séum ekkert án Bandalagsins og við verðum að leggja vel til þess.

Örn Alexandersson segir að þetta geti mögulega verið þrýstingur á ríkið, þ.e. að með því að við séum að leggja hluta af okkar framlagi til Bandalagsins sýni að það sé ekki nægilegt fjármagn sett til skrifstofunnar.

Guðfinna formaður segir að stöðugt sé verið að vinna í auknum styrkjum.

Elli leggur til að ráðherra hækki framlög til Bandalagsins og styrki til leikfélaga um sama hlutfall og laun alþingismanna hækkuðu haust.

Atkvæðagreiðsla um að hækka framlag til þjónustumiðstöðvar Bandalags íslenskra leikfélaga þannig að það verði 2.500.000 í ár sem tekið verði af framlagi ríkisins til leikfélaganna.

Samþykkt.

14. Starfsáætlun afgreidd.

Fulltrúar hópa kynna niðurstöður hópavinnu:

Guðrún Halla Jónsdóttir kynnir niðurstöðu starfshóps 1:
Í hópnum voru: Ólafur Kristinsson Umf. Skallagrími, Bára Einarsdóttir Umf. Reykdæla, Haukur Páll Kristinsson Leikfélaginu Grímni, Sigríður Hafsteinsdóttir Leikfélagi Selfoss, Örn Alexandersson Leikfélagi Kópavogs, Anna Margrét Pálsdóttir Leikfélagi Kópavogs, Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir  Leikfélagi Hörgdæla, Guðrún Halla Jónsdóttir Hugleik og Ingveldur Þórðardóttir Leikfélagi Hafnarfjarðar.

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, leiklistarskóla, leiklistarvefs og annarra fastra liða í starfseminni.

a. Skoða miðasölukerfi fyrir öll leikfélögin.  Bandalagsskrifstofan tæki hlutfall af miðaverði.  Hvetjum stjórn til að skipa nefnd til að skoða þetta.

b. Gagnagrunnur fyrir eignir félaganna sem þau eru tilbúin til þess að lána eða leigja. Myndasafn með búningaeign leikfélaganna, einkum sérstaka búninga.  Annað safn fyrir propps, þriðja fyrir tækjabúnað. Leikfélögin myndu sjálf setja inn myndir, skýra og flokka. Gæti mögulega verið leigukerfi og Bandalagið fengið hlut.  Sama nefnd gæti skoðað þetta mál.

c. Stjórn hvetji félögin til þess að koma með ábendingar um mögulegt leiguhúsnæði fyrir þjónustumiðstöðina.

d. Setja markmið um að Bandalagið verði komið í eigið húsnæði árið 2025.

e. Skólinn. Skoða hvort nýr staður geti boðið uppá þann kost að skólinn verði í lok sumars. Gæti komið krafti inn í starf leikfélaganna á haustin. Tvær helgar henta mörgum betur vegna orlofsdagatöku, nú sjö dagar í stað fimm.

f. Námskeið.  Fjölnámskeið í skólann. Jafnframt mætti hvetja leikfélög sem hafa góðan tæknibúnað og -kunnáttu til þess að halda námskeið fyrir nokkur félög í einu.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Taka saman tölfræði yfir það hvernig kostnaður hefur hækkað á meðan opinberir styrkir hafa lítið breyst, sem og tölfræði yfir starfsemi leikfélaganna, námskeið, unglingastarf o.s.frv. Hengja með rökstuðningi fyrir starfseminni (sjá menningarstefnu, sem og uppeldislega gildið o.fl.). Leikfélögum hefur fækkað þar sem styrkir eru lægri. Dregur úr menningarstarfsemi í byggðalögum.

Mikilvægt er að auka sýnileika áhugaleikhússins og efla virðingu fyrir starfseminni. Fá fólk sem hefur vægi í samfélaginu og hefur reynslu af starfi í áhugaleikfélögum til að skrifa um þá reynslu á opinberum vettvangi. T.d. herferð með stuttum greinum með stuttu millibili fyrir fundi fjárlaganefndar. Það myndi vekja athygli á mikilvægi okkar og bæta möguleika okkar á að sækja styrki í opinbera sjóði eða til einkaaðila.

Hvetja öll leikfélög til þess að deila færslum og auglýsingum frá öðrum leikfélögum. Það eykur sýnileika okkar allra.

Leggjum til að stjórn vinni staðlað bréf um mikilvægi áhugaleikhússins sem allir formenn gætu sent til sveitarstjórnarmanna, þingmanna, fjárlaganefndar, menningar- og menntamálaráðherra o.s.frv. Verði tekið fyrir á bæjarráðsfundum og bókað. Jafnvel bréf frá stjórn Bandalagsins.

Annað

Sérverkefni.

Leggjum til að taka menningarstefnuna til umfjöllunar á næsta þingi með það fyrir augum að vinna markmiðasetningu til lengri og skemmri tíma.  Finna mælanleg markmið fyrir hvern lið.

Leggjum til að hafa stóra leiklistarhátíð 2020, á 70 ára afmæli Bandalagsins, jafnvel alþjóðlega.

Leggjum til að einn stjórnarmaður Bandalagsins sé sérstakur „fóstri“ ungliðahreyfingarinnar.

Leggjum til að leikfélögum verði leiðbeint um notkun tómstundastyrkja til barna-/unglinganámskeiða, hvernig best sé að fá sveitarfélögin til samstarfs og hvernig framkvæmdin sé. Einnig gæti stjórn BÍL unnið að því á landsvísu að tómstundastyrkir sveitarfélaganna geti nýst á þennan hátt.  Sömuleiðis efla samstarf við sveitarfélögin um skapandi sumarstörf.

Gerður Halldóra Sigurðardóttir kynnir niðurstöður starfshóps 2:
Í hópnum voru: Guðbjörg Helgadóttir UMF Skallagrími, Hafrún Bylgja Guðmundsdóttir Leikfélaginu Grímni, Viktor Ingi Jónsson Leikfélagi Selfoss, Brynhildur Sveinsdóttir Leikfélagi Mosfellssveitar, Jónheiður Ísleifsdóttir Leikfélagi Selfoss, Kristín Ólafsdóttir Leikfélagi Hveragerðis, Ágúst Þormar Jónsson Leikfélagi Hólmavíkur.

Rekstur:
Virkja tengslanet í tengslum við húsnæðisleit.

Spyrjast fyrir um lagalegu hliðina á dreifingu/sölu handrita á rafrænu formi. Uppá að geta fengið afhent á rafrænu formi í stað útprentaðs.

BÍL skóli:
Koma því betur á framfæri hvaða kröfur eru settar til að fólk geti farið í skólann. Reynsla, fyrri námskeið. Fram kom að það séu margir sem ekki þora að sækja um.

Hafa alltaf eitthvað námskeið sem er fyrir þá sem vilja fara í fyrsta skipti – annað hvort sérnámskeið eða byrjendanámskeið.

Senda kynningaraðila í leikfélög til að kynna skólann / vera með smá fyrirlestur.

Námskeiðshugmyndir:
1. Uppistandsnámskeið

2. Baksviðsnámskeið – Mismunandi námskeið á hverjum degi:
Dagur 1 – Smink
Dagur 2 – Búningar
Dagur 3 – Sviðshönnun
Dagur 4 – Framkvæmdastjórnun sýninga
Dagur 5 – Markaðssetning
Dagur 6 – Sviðslýsing ( Bóklegt – kenningar )
Dagur 7 – Hljóð
O.f.l.

Vefur – Leiklist.is:

Sameiginleg viðburðarsíða inni á leiklist.is sem svipar til miði.is.

Yfirsýn yfir hvað er í gangi hjá leikfélögunum.

Þar sem sést einhverskonar plaggat eða mynd.

Sýningartímar

Netfang viðkomandi leikfélags – til að hafa samband.

Þar er hægt að kaupa miða á viðkomandi sýningu.

Hvert leikfélag myndi pósta sinni sýningu gegn smá auglýsingargjaldi.

Styrkir:

Vekja athygli.

Bjóða flóttamönnum á sýningar.

Bjóða upp á vettvang fyrir höfunda – listamenn – tónlistarfólk til að koma frumsömdu efni á framfæri.

Styrkir fyrir félög sem vilja fara erlendis.

Flugfélög veita t.d styrki fyrir tónlistarfólk.

Sérverkefni:

Bjóða upp á þjálfun fyrir þá sem eru að fara í áheyrnaprufur.

Ungliðastarfskynningar.

Ungliðahreyfing Bandalagsins.

Axel Vatnsdal kynnti niðurstöður starfshóps 3:
Í hópnum voru: Oddfreyja Oddfreysdóttir Leikfélagi Ölfuss, Stefán Örn Viðarsson Leikfélagi Selfoss, María Guðmundsdóttir Leikfélagi Mosfellssveitar, Þórdís Sigurgeirsdóttir Leikfélagi Kópavogs, Hugrún Óskarsdóttir Leikfélagi Hveragerðis, Magnþóra Kristjánsdóttir Leikfélagi Ölfuss, Axel Vatnsdal Leikfélagi Hörgdæla og Guðrún Eysteinsdóttir Hugleik.

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, leiklistarskólans, leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

Allir sammála um að vel sé haldið utan um reksturinn. Höfum áhyggjur af húsnæðismálum ef svo fer sem horfir. Rætt um að það þyrfti að losna við yfirdráttinn. Mætti hækka enn frekar þá upphæð sem tekin er af ríkisstyrknum svo reksturinn réttist endanlega við?

Varðandi vörur sem renna út finnst okkur góð hugmynd að reyna að selja á afslætti það sem er að komast á tíma. Því fylgir auðvitað einhver vinna við að fylgjast með vörulagernum en algjörlega þess virði að skoða.

Rætt um ljósa- og tækninámskeið. Góð hugmynd að halda námskeið heima í héraði og nota mannauð leikfélaganna. Ljósanámskeið, Qlab og fleira. Það er kominn tími á förðunarnámskeið. Leggjum til að skólastýrur skoði það.

Rætt um námskeið í skólanum og skipulag. Skiljum sjónarmið skólastýra varðandi það að hægja á ef eftirspurn er farin að minnka. Þó er mjög hentugt fyrir leikfélögin að geta gengið að því vísu að grunnnámskeið eins og Leiklist I séu kennd annað hvert ár. Það eykur nýliðun í félögunum. Hugmynd kom upp hvort sniðugt væri að kenna Leiklist I tvö ár í röð? Mætti t.d. gera könnun meðal félaganna áður en námskeið eru ákveðin til að sjá hvernig landið liggur.

MIðasölukerfi rætt. Kostur við slíkt kerfi er t.d. að fólk getur greitt strax og við teljum að það minnki líkur á því að það hætti við að koma á sýningu þrátt fyrir að hafa pantað miða. Okkur finnst góð hugmynd að kanna möguleika á sameiginlegu miðasölukerfi leikfélaganna. Leikfélögin myndu greiða einhverja upphæð til verkefnisins og myndi sá peningur renna til þjónustumiðstöðvarinnar. Bandalagið gæti þannig fengið smá prósentur af seldum miðum. Leggjum til að stjórn skoði þennan möguleika af alvöru.

Stefán ræddi um möguleika Office 365 og kosti þess fyrir leikfélög. Hægt að fá þetta ókeypis fyrir félagastarfsemi.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Vísum í það sem áður hefur verið sagt um að hækka upphæðina sem tekin er af ríkisstyrknum. Hvetjum stjórn til þess að reyna að ná fundi sem allra fyrst með menntamálaráðherra til að ræða framtíð ríkisstyrksins og möguleika á að hann hækki.

3. Önnur sérverkefni

Halda vinnustofunámskeið eða fyrirlestra í t.d. vefgerð, Qlab, Office 365 og fleiru í tengslum við næsta aðalfund.

F. Elli Hafliðason kynnti niðurstöður starfshóps 4:

Í hópnum voru: Hákon Svavarsson Leikfélagi Ölfuss, Guðný Lára Gunnarsdóttir Leikfélagi Selfoss, Guðrún Esther Árnadóttir Leikfélagi Mosfellssveitar, Fanney Valsdóttir Leikfélagi Hörgdæla, Valdimar Ingi Guðmundsson Leikfélagi Hveragerðis, Anna María Hjálmarsdóttir Freyvangsleikhúsinu, F. Elli Hafliðason Leikfélagi Selfoss og Ólafur Þórðarson Leikfélagi Hafnarfjarðar.

 1. Rekstur þjónusmiðstöðvar, leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annara fastra liða í starfseminni.

 Almenn ánægja með stöðu mála í starfsemi Bandalagsins. Hópurinn hefur þó verulegar áhyggjur af stöðu fjármála, húsnæði og þröngum kosti sem Bandalaginu er settur. Spurning hvort sækja mætti húsnæði til ríkisins á einhvern máta.

 Nokkur umræða varð um þátttöku aðildarfélaga í starfseminni. Sem dæmi eru einungis fulltrúar 15 aðildarfélaga mættir á aðalfund. Hópurinn er sammála um að stjórnin gæti notað „fósturfélagakerfið“ betur. Spurning hvort að hver stjórnarmaður hitti fulltrúa frá sínu fósturfélagi a.m.k. einu sinni á starfsári til að kynna fyrir þeim starfsemi Bandalagsins, hvað það geti gert fyrir félagið og hvetji til þátttöku í starfseminni.

Stjórnin skuli kanna möguleika á því að auðvelda öllum félögum að sækja aðalfund.

Hópurinn mælir gegn því að grunnnámskeiðum í leiklist í Bandalagsskólanum verði fækkað. Helstu rök eru talin vera að liðið getur langur tími fyrir nýliða að komast í skólann. Mikil ánægja með að skólinn skuli íhuga tækni og hönnunarnámskeið. Þó nokkur umræða fór fram varðandi námsframboð bæði á starfstíma skólans og einnig utan hans. Hópurinn tekur fram að hann hefur tröllatrú á að skólastýrur og skólanefnd hafi bæði reynslu og þekkingu á því hvað sé skynsamlegast að gera í þessum málum.

 Almenn ánægja er innan hópsins hvernig vefurinn hefur þróast. Hópurinn leggur áherslu á að auðvelt aðgengi sé að ítarlegum úthlutunarreglum. Eins megi hafa dagsetningar úthlutunarfrests betur sýnilegar. Sameiginlegt greiðslukerfi milli félaganna er spennandi kostur og er hópurinn á því að stjórn og vefnefnd eigi að kanna möguleikann á því hvort forsenda sé fyrir slíku.

  2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Hópurinn er sammála um að stjórnin skuli leggja áherslu á að fylgja þessari stefnu eftir af krafti og telur ljóst að auka þurfi við af hálfu ríkisins. Reyna mætti að beita hrepparíg í samtölum við ráðherra.

3. Önnur sérverkefni.

Hópurinn er sammála um að það sé góð hugmynd að nýta aukinn tíma í kringum aðalfund til námskeiðahalds líkt og gert var nú.

Hópurinn er sammála um að stjórnin skuli kanna möguleikann á einhvers konar sameiginlegu verkefni, t.d. „stuttverkadegi“. Telur hópurinn að það þurfi ekki að tengjast aðalfundi.

Hópurinn minnir á að 2020 sé handan við hornið og fara þurfi af stað með undirbúning fyrir NEATA ef við ætlum að sækja um að halda hátíðina.

Umræður um starfsáætlun:

Örn ber upp spurningu til Lénsherra um það hvenær verði hægt að setja upp leiksýningu með því að ýta á takka. Vefstjóri brosir í kampinn.

Vilborg leiðréttir misskilning um að hægt sé að sækja um að halda NEATA hátíð árið 2020. Þær fari eftir röð og það komi ekki að okkur fyrr en 2028.

Hrefna þakkar allar góðar ábendingar til skólanefndar og minnist á að gaman væri að halda aftur stuttverkahátíð í sambandi við aðalfund því það var lítil þátttaka á stuttverkahátíð NEATA í færeyjum í fyrra og það væri synd að missa það niður.

Guðfinna talar um að hún sé búin að skrifa og skrifa en tala um að sumar hugmyndir af umbótum á vefnum gæti verið hægt að leysa með hópum á facebook. Hún segist vera hlynt hugmyndum um að hafa tækninámskeið en talar einnig um að gaman væri að hafa aftur stuttverkahátíð.

Gísli Björn heldur að það sé kannski ekki mikið mál að setja upp safn með leikmunum og búningum, heldur sé málið að viðhalda réttum gögnum. Halla er ekki sammála. Hann stingur upp á því að streyma aðalfundinum fyrir þá sem eiga ekki heimagengt.

Hörður greip þrennt sem snýr að vefnum. Minnsta mál í heimi að setja upp viðburðasíður en vandamálið hefur ekki verið að setja inn efni heldur að fá efni frá leikfélögunum. Miðasölukerfi er viðamikið verkefni en hann mun skoða þetta og allar tillögur eru vel þegnar. Varðandi tækja og búningasafn finnst honum góð hugmynd og er búin að setja upp prótótýpu sem áhugasamir geta fengið að skoða. Halla segir að Hörður sé snillingur. Hann biður um að það sé bókað.

Elli vekur athygli á facebook hópum sem eru til nú þegar en finnst góð hugmynd að setja þetta á Leiklistarvefinn. Hann minnist einnig á það að stundum er ekki sama fólk að leika í stuttverkum og er að fara á aðalfund Bandalagsins því sé stundum erfitt að fara með stuttverk hinumegin á landið.

Guðrún Halla segir hennar reynsla hafi verið að það séu meiri líkur að fleiri félög taki þátt ef hátíðin tengist Bandalagsþingi en það sé bæði hægt að hafa stuttverkahátíðir að hausti og vori.

Fram koma þrjár tillögur um liði á starfsáætlun:

1. Tillaga að sérverkefni fyrir næsta starfsár:

Að halda vinnustofunámskeið/fyrirlestra um t.d. vefgerð, Qlab, Office 365 ofl. í tengslum við næsta aðalfund.

Starfshópur 3:
Axel Vatnsdal
María Guðmundsdóttir
Guðrún Eysteinsdóttir
Hugrún Óskarsdóttir
Stefán Örn Viðarsson
Þórdís Sigurgreirsdóttir
Magnþóra Kristjánsdóttir

2. Sérverkefni tillaga:

Að haldin verði stuttverkahátíð í tengslum við aðalfund 2018.
Stjórn BÍL

3. Starfsáætlum BÍL 2017-2018
Tillaga:
Settur verði á laggirnar starfshópur sem hefji undirbúning að leiklistarhátíð í einhverju formi sem haldin yrði í tengslum við afmæli BÍL árið 2020.
Ingveldur Þ. og Sigríður H.

Umræður um tillögur:

Stefán útskýrir kosti þess að nota Office 365.

Elli spyr hvort fjárhagsleg áhætta fylgi því að halda afmælishátíð. Ingveldur útskýrir að það sé tilgangurinn með starfhópnum að kanna forsendur fyrir hátíð og kanna á hvaða formi best væri að hafa hana.

Tillaga 1 borin undir fund og samþykkt.

Tillaga 2 borin undir fund og samþykkt.

Tillaga 3 borin undir fund og samþykkt.

Starfsáætlun lesin upp og lögð fyrir fund:

Starfsáætlun  Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2017-2018

Almenn starfsemi

1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.

2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.

Sérverkefni

1. Að halda vinnustofunámskeið/fyrirlestra um t.d. vefgerð, Qlab, Office 365 ofl. í tengslum við næsta aðalfund.

2. Að haldin verði stuttverkahátíð í tengslum við aðalfund 2018.

3. Settur verði á laggirnar starfshópur sem hefji undirbúning að leiklistarhátíð í einhverju formi sem haldin yrði í tengslum við afmæli BÍL árið 2020.

Starfsáætlun samþykkt.

15. Stjórnarkjör.

Guðfinna Gunnardóttir gefur kost á sér til áframhaldandi formannssetu. Engin mótframboð bárust. Guðfinna kosinn formaður Bandalagsins.

Gísli Björn Heimisson gefur kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Engin mótframboð. Gísli Björn kosin til áframhaldandi stjórnarsetu.

Þrír varamenn eiga að ganga úr stjórn. Þrúður Sigurðardóttr, Embla Guðmundsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir. Þær gefa allar kost á sér áfram. Engin mótframboð. Þær kosnar til áframhaldandi stjórnarsetu.

16. a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs.

Kjörnefnd skipa Dýrleif Jónsdóttir, Gerður Sigurðardóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir. Örn Alexandersson til vara. Þau gefa öll kost á sér áfram. Engin mótframboð. Kjörnefnd situr áfram óbreytt.

b. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.

Núverandi skoðnarmenn reikninga eru Anna Jórunn Stefánsdóttir, Hrefna Friðriksdóttir og Júlía Hannam til vara. Þær gefa allar kost á sér áfram. Engin mótframboð. Skoðunarmenn sitja áfram.

17. Ákveðið árgjald til Bandalagsins.

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2017-2018 verði kr. 68.500.
Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða 102.750 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 137.000.
Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 34.250.

Umræður um árgjald:

Embla spyr hvort þeir sem kaupi bókina fái afslátt. Stjórn neitar því.

Tillaga að árgjaldi borin upp og samþykkt.

18. Önnur mál

Jónheiður Ísleifsdóttir á sér draum og bar fram tillögu að sameiginlegri búningageymslu leikfélaganna. Með góðri viðskiptaáæltun væri hægt að stuðla að því að auðvelda fjármögnun. Búningar væru leigðir út.  Mögulega væri hægt að sækja um í Nýsköpunarsjóð.

Elli leggur til að í samfellu við búningageymsluna verði leikmunaleiga.

Vilborg ber fram tillögu fyrir Örn Alexanderson.  Örn leggur til við stjórn Bandalagsins að hún beiti sér fyrir því að skoða sameiginlegt miðasölukerfi og eignaumsýslukerfi á Leiklistarvefnum.

Vilborg greinir frá því að það líði að starfslokum hennar hjá Bandalaginu en hún hefur ákveðið að hætta störfum vegna aldurs um áramótin 2018/19 eftir samtals 40 ára vinnu fyrir samtökin, þar af sem framnkvæmdastjóri í 25 ár. Hún leggur til að tekinn verði tími á næsta aðalfundi til að meta stöðuna og taka ákvarðanir um rekstur þjónustumiðstöðvarinnar í framhaldinu. Nú sé tímabært að skoða hann vel.

Bernharð Arnarson vill minna á að bókin Allt fyrir andann sé enn til sölu á 1000 kr. Gott að hvert leikfélag kaupi a.m.k 1 stk og gefi Vilborgu að skilnaði. Hann þakkar síðan fyrir frábæran fund og óskar þess að fólk eigi góða kvöldstund.

19. Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund.   

Embla Guðmundsdóttir, Ungmennafélagi Reykdæla býður til Bandalagsþings á næsta ári í tilefni 110 ára afmælis félagsins.

Guðfinna þakkar fyrir boðið. Hún gleðst yfir góðum og hnitmiðuðum fundi og hún hlakkar til áframhaldandi góðs samstarfs við stjórn Bandalagsins. Formaður þakkar starfsmönnum fundarins og slítur fundi kl. 15:54.

Fundargerð rituðu Jónheiður Ísleifsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir.