Leikfélag Fljótsdalshéraðs tefldi djarft í haust og hóf æfingar á Fullkomnu brúðkaupi eftir Robin Hawdon.  Því miður náðist ekki að frumsýna vegna veirunnar en nú er loks komið að stóru stundinni. Frumsýnt verður laugardaginn 23. janúar kl. 20.00 að Iðavöllum. Það er hinn margreyndi Guðjón Sigvaldason sem leikstýrir verkinu.
Brúðkaupsdagurinn er runninn upp. Brúðguminn vaknar með konu sér við hlið. Hann hefur aldrei séð hana fyrr. Hver er þessi kona? Hvað gerðist kvöldið áður? Hann flækist inn í atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinni og herbergið í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað… Fullkomið brúðkaup er frábærlega skrifaður gamanleikur, hraður, fullur af misskilningi, framhjáhöldum og ást.
Aðeins er hægt að panta miða í tölvupósti, ekki er hægt að kaupa á staðnum. Grímuskylda og takmarkaður áhorfendafjöldi verður í sal. Áhorfendarými er aðskilið frá rými leikara og tæknihóps í samræmi við sóttvarnareglur.
Nánari upplýsingar um sýningjuna er að fá á vef Leikfélags Fljótsdalshéraðs og hægt er að panta miða á netfanginu leikfelagfljotsdalsherads@gmail.com.

Leikarar í sýningunni eru þau Jón Vigfússon, Trausti Dagbjartsson, Lilja Iren Gjerde, Sandra Dís Linnet, Hrefna Hlín Sigurðardóttir og Fanney Magnúsdóttir.  Sýnt verður daglega a.m.k. til loka janúar.