Frumsýningu Leikfélags Ölfuss á Stútungasögu, sem vera átti í kvöld, þriðjudaginn 26. október kl. 20.00, hefur af óviðráðanlegum orsökum verið frestað til 2. nóvember. Leikritið er  eftir fjóreykið Ármann Guðmundsson, Hjördísi Hjartardóttur, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason og er paródía á Sturlungaöldina. Segir þar frá ástum og ofbeldi, klækjum og klaufaskap, hetjuskap og hálfvitagangi auk þess sem flett er ofan af höfundi Njálu. Leikstjóri er Ármann Guðmundsson. Sýnt er í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss.

Stútungasaga var fyrst sett upp hjá leikfélaginu Hugleik í Reykjavík árið 1993 og eru uppsetningar á verkinu hjá áhugaleikfélögum síðan orðnar um 10 talsins. Leikritið byggir á gamansaman hátt á fornsögunum, einkanlega Sturlungu. Bændur berjast og brenna bæi hvers annars, gifta syni sína og dætur eftir hentugleikum og skreppa í heimsóknir til konungshjónanna af Noregi inn á milli bardaga, bruna og brúðkaupa. Frillulíf á Íslandi er einnig skoðað vendilega og skáldkona ein skrifar „söguna“ eftir því sem hún fær kálfsskinn til, en bóndi hennar er orðinn ansi langþreyttur á því að gripir hans nái aldrei fullum vexti. Sem sagt mikið átakaverk.

Leikfélag Ölfuss tók til starfa í október 2005 og á því 5 ára afmæli um þessar mundir. Sýningar eru orðnar þónokkrar, Ég elska alla, Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan, Mómó og tímaþjófarnir, Blúndur og Blásýra, Maður í mislitum sokkum og nú Stútungasaga. Auk þess hefur LÖ skemmt á ýmsum uppákomum og samið og flutt útvarpsleikrit.

Næstu sýningar verða sem hér segir:
Frumsýning, 2. nóv. þriðjudagur kl. 20 – Uppselt
2. sýning, 4. nóv.  fimmtudagur kl. 20
3. sýning, 5. nóv.  föstudagur kl. 20
4. sýning, 6. nóv.  laugardagur kl. 20
5. sýning, 7. nóv.  sunnudagur kl. 17

Fyrir sýningar á föstudögum og laugardögum er leikhúsmatseðill í Ráðhúskaffi, sími 483-1700.

{mos_fb_discuss:2}