Óperettuparið Fjársjóðurinn í tónlistarskólanum verður frumsýnt í Iðnó þriðjudaginn 24. apríl kl. 20.00. Fyrri hlutinn er Tónlistarskólinn, splunkunýtt verk eftir Þórunni Guðmundsdóttur og síðari hlutinn er óperettan Falinn fjársjóður eftir Offenbach í nýrri þýðingu Þórunnar. Flytjendur eru nemendur í Tónlistarskólanum í Reykjavík, 14 söngvarar og hljómsveit. Stjórnandi er Tryggvi M. Baldvinsson og leikstjóri er Þórunn Guðmundsdóttir.

Tónlistarskólinn gerist í tónlistarskóla sem er í gífurlegu fjársvelti. Það veldur því að skólastjórinn verður ákaflega þunglyndur og missir alla trú á tónfræði og tónlist. Þegar nemendurnir frétta þetta ákveða þeir að setja upp óperu til að hressa hann við og koma skólanum á kortið. Við fylgjumst svo með aðdragandanum að uppfærslunni, en inn í söguþráðinn blandast metnaður og ástarflækjur nemendanna. Loks fylgjumst við með generalprufunni á óperettu Offenbachs, þar sem ýmislegt fer úrskeiðis og lítur jafnvel út fyrir að það verði að aflýsa sýningum, en allt fer þó vel að lokum.

Þetta er frumflutningur á óperettu Offenbachs á Íslandi og að sjálfsögðu frumflutningur á Tónlistarskólanum eftir Þórunni. Þetta er fjórða söngverkið sem Þórunn skrifar gagngert fyrir Tónlistarskólann í Reykjavík, en áður hafa verið settar upp eftir hana óperurnar Mærþöll, Gilitrutt og Hlini, sem allar sækja efnivið í íslensk ævintýri.

Sýningar verða í Iðnó kl. 20.00 þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag í þessari viku, en aðeins verða sýndar þessar þrjár sýningar. Hægt er að kaupa miða á midi.is og við innganginn.

{mos_fb_discuss:2}