Leikfélag Kópavogs frumsýndi föstudaginn 22. nóvember leikverkið Hljómsveitina eftir leikstjórann Ágústu Skúladóttur og leikhópinn. Gagnrýnandi leiklistarvefsins, Ármann Guðmundsson, stakk inn nefi og líkaði greinilega það sem hann sá. Þetta hefur hann að segja um það. band23.jpgEins og vafalaust hjá fleirum sem sáu Ævintýri Grimms hjá Leikfélagi Kópavogs sl. vetur tók hjartað í mér heljarstökk af tilhlökkun þegar ég frétti að Ágústa Skúladóttir ætlaði að setja upp annað verk með félaginu nú í haust. Það var því með allt að því ósanngjarnar væntingar sem ég fór á frumsýningu á Hljómsveitina sl. föstudagskvöld. Skyldi þeim takast að endurskapa töfrana sem gerðu Grimms einni allra bestu leiksýningu sem undirritaður hefur séð í íslensku leikhúsi? Leikritið Hljómsveitin gerist í byrjun 20. aldar og segir frá ævintýramanninum Vilhjálmi Hákonarsyni sem ferðast hefur um Evrópu og Ameríku en er þegar verkið gerist sestur að í Keflavík og hefur opnað þar verslun. Honum finnst menningarlífið heldur dapurt og ákveður því að stofna lúðrasveit og fær til liðs við sig fólk sem er kannski ekki úr efstu stigum þjóðfélagins. Þau hefja æfingar þótt engin séu hljóðfærin til en til þess að fá styrk frá hreppnum til hljóðfærakaupa verður hljómsveitin að taka á sig skyldur sem óvíst er hvort hún standi undir.
VilhjálmurÞað er auðvitað ósanngjarnt að skrifa „gagnrýni“ sem samanburð við fyrri verk, en í stuttu máli má segja að Leikfélagi Kópavogs og Ágústu „hafi tekist það aftur“. Hljómsveitin er að mörgu leyti frábrugðin Grimms, í þetta sinn er sögð ein heildstæð saga lauslega byggð á íslenskum veruleika í byrjun 20. aldar en meðölin eru samt þau sömu, gífurleg hugmyndaauðgi, agaður og góður leikur, stórkostleg umgjörð, frábær notkun tónlistar og mikil kraftur. Veikasti hlekkur sýningarinnar er kannski sagan sjálf, hún er hvorki efnismikil né stórbrotin en það verður einhvern veginn aukaatriði vegna þess hversu skemmtilega hún er sögð.

Leikhópurinn er þrátt fyrir mismikla reynslu afar samstíga og vinnur mikinn leiksigur. Allar persónur eru afar skýrar og skemmtilegar en það er ekki á neinn hallað þó að Helga Róbert Þórissyni sé hrósað sérstaklega. Helgi hefur sérlega gott vald á kómískum tímasetningu og túlkaði snilldarlega hugsjónamanninn Vilhjálm sem sér á sér háleita drauma sem hann sér svo snúast upp í martröð. Einnig áttu Einar Þór Samúlesson sem bæklaði pósturinn Einar og Ágústa Eva Erlendsdóttir sem skoffínið Gilberta afar sterk augnablik og Magnús Guðmundsson og Guðmann Bjargmundsson voru kostulegir sem hinir uppfinningasömu bræðurnir Geiri og Gilli.

band46.jpgÞað eru ekki mörg leikfélög á landinu sem leggja jafn mikinn metnað í umgjörð leiksýninga sinna og Leikfélag Kópavogs enda býr það þar að miklu hæfileikafólki. Leikmynd og búningar eru í höndum Finnboga Erlendssonar, Þóreyjar Bjarkar Halldórsdóttur og Þórunnar Evu Hallsdóttur og má segja að leikmyndin sé sjálfstætt listaverk. Hún þjónar verkinu fullkomlega, er afar hugvitsamlega útfærð og kemur manni sífellt á óvart. Búningarnir eru sömuleiðis afar skemmtilegir og undirstrikuðu persónur vel. Allt þetta rann svo saman í eina augnakonfektsheild í lýsingu Skúla Rúnars Hilmarssonar. Ástæða er líka til að hrósa útliti leikskrár, hún er afar skemmtileg og frumleg þótt hún sé kannski ekki sérlega praktísk. Það mættu ýmsir taka sér til fyrirmyndar þann metnað sem þar er í lagður. Þá er eiginlega bara óupptalinn þáttur leikstjórans, Ágústu Skúladóttur. Það er alveg óhætt að segja eftir þessar tvær sýningar að Ágústa er hvalreki á strönd íslensks áhugaleikhúss og það er í raun hneisa að stóru atvinnuleikhúsin skuli ekki slást um að fá hana til starfa. Henni tekst einhvern vegin að fá út það besta úr öllum leikurum og búa til sýningar sem eru leikhús í sinni tærustu mynd. Hljómsveitin er tvímæla laust stórt blóm í hennar hnappagat og það verður spennandi að sjá hvað hún gerir með Hugleik eftir áramót.

Ármann Guðmundsson