Stjórnarfundur: 11/11/2017 kl. 10:00  Staður: Kleppsmýrarvegur 8

Fundarmenn:

Guðfinna Gunnarsdóttir, Ólöf Þórðardóttir, Þráinn Sigvaldason, Gísli Björn Heimisson, Vilborg Valgarðsdóttir, frkv.stj.


Fundargerð:

Bandalag íslenskra leikfélaga
Fundur stjórnar haldinn að Kleppsmýrarvegi 8
laugardaginn 11. nóvember 2017 kl. 10.00:

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar

● Guðfinna fór yfir fundargerðina og ræddi hvort ekki væri hægt að nálgast „Landaþáttinn“ þar sem fjallað var um Bandalagsskólann. Einnig hvort hægt væri að fá eldra efni hjá RUV. Vilborg ætlar að ganga í málið.

● Þurfum að hafa samband við nýjan ráðherra sem fyrst eftir að ný ríkisstjórn verður tekin til starfa.

● Rætt var um að setja saman nefnd um leiklistarhátíð 2020. Ákveðið að taka það fyrir á næsta stjórnarfundi.

2. Starfsáætlun leikárið 2017-18:

● Rekstur þjónustumiðstöðvar gengur vel. Hrekkjavökusalan var þó umtalsvert minni en undanfarin ár. Líkleg skýring á því er að það eru svo margir sem eru farnir að selja sambærilegar vörur fyrir þennan dag og eins verslar fólk í meira mæli erlendis frá. Drama, danska heildsalan fyrir Grimas förðunarvörurnar, varð gjaldþrota nú í enda október. Við verslum því beint frá framleiðanda í Hollandi framvegis og kemur fyrsta sendingin þaðan fljótlega. Verðið á vörunum virðist svipað en þó mun muna um það að sendingarkostnaður verður enginn frá Hollandi en var umtalsverður frá Danmörku. Gott væri að senda út póst til aðildarfélaganna fyrir næstu pöntun með spurningu um hvort það sé eitthvað sérstakt sem leikfélaginu þeirra vanti.

● Fjárhagur bandalagsins er sterkari en fyrir ári síðan.

● Gísli sagði frá síðasta fundi skólanefndar og sagði frá hugmyndum að námskeiðum næsta sumar.

● Leiklistarvefurinn er í góðum höndum Lénsherra.

● Rætt um að fá Hörð til að aðstoða okkur og koma með hugmyndir að vinnustofunámskeiði samhliða aðalfundi 2018.

● Þurfum að minna reglulega á að það verði stuttverkahátíð samhliða aðalfundi 2018 þannig að félög geti betur undirbúið sig.

3. Af erlendum vettvangi:

a) Þátttaka okkar í barnaleikhúsmótinu í Frakklandi 2018

● Guðfinna ræddi um þessa hátíð og hvernig best væri að haga þátttöku okkar á mótinu sem haldið verður í Tolouse í Frakklandi 10.- 22. júlí 2018. Ákveðið hefur verið að við og Færeyingar skipti með okkur þátttökunni þannig að hvert land sendir 3 krakka 13-15 ára, Færeyingar senda leiklistarkennara og við sendum fararstjóra/umsjónarmann með börnunum frá báðum löndunum. Rætt var um að tala við formenn þeirra félaga sem hafa verið með barna- og unglingastarf. Ákveðið var að finna sem fyrst fararstjóra til þess að halda utan um ferðina en þó ekki fyrr en mótshaldarar hafa staðfest við okkur að þeir hafi útvegað nægilegt fjármagn svo að af þessu geti yfirleitt orðið.

b) Skýrslur Guðfinnu og Vilborgar um fundi IATA og NEATA í Monaco

● Guðfinna og Vilborg fóru yfir það sem fram fór á IATA fundinum. Þar kom m.a. fram að það var ákveðið að fækka í stjórn og formaðurinn tekur strax við eftir stjórnarkjör. Allar hugmyndir um að stækka og opna félagsskapinn voru skotnar í kaf á fundinum. Mikil hagsmunapólitík var í gangi meðal frönskumælandi fulltrúanna og sterk andstaða við þær breytingar sem lagðar höfðu verið fyrir fundinn. Þær stöllur voru á því að þetta hafi verið áhugaverður og gagnlegur fundur. Sérstök skýrsla frá fundum NEATA fylgir fundargerðinni, athugið að hún er skrifuð í ágústlok sl.

c) Næsta NEATA hátíð í Litháen 2018

● Verður í Litháen 31. júlí til 5. ágúst. Það verður vegleg hátíð þar sem NEATA er að halda upp á 20 ára afmæli á þessum tíma. Litháar bíða staðfestingar á umsóttum styrkjum til hátíðarinnar og þangað til er ekki hægt að auglýsa eftir sýningum. Þeir eiga von á svörum í þessum mánuði og þá munum við senda út allar nánari upplýsingar.

4. Önnur mál

● Vilborg sagði frá fundi með Ungversku leikhúsfólki sem bókað hafði fund með henni á skrifstofunni í enda ágúst sl. Erindi þeirra var að kynnast íslensku leikhúsflórunni frá sem flestum hliðum.

● Ákveðið að hafa góðan vinnufund stjórnar BÍL í mars 2018.

● Rætt var um ársritið og hvað það er einstaklega gæsilegt þetta árið.

Fundi slitið klukkan 11:50.

Fundargerð ritaði Þráinn Sigvaldason

 

NEATA fundir í Monaco – ágúst 2017

Hotel Novotel, Monaco, 23.8. kl. 9.30

1. Farið í gegnum breytingartillögur stjórnar AITA/IATA á gildandi stjórnarskrá samtakanna. Eftir nokkrar umræður voru flestir sammála um að þær væru allar til bóta en hvert og eitt land myndi kjósa um þær eftir sinni samvisku en ekki eftir samræmdri skoðun NEATA.

2. Næsta NEATA hátíð verður í Litháen 31. júlí til 5. ágúst 2018. Það ár verður NEATA 20 ára. Yfirskrift hátíðarinnar verður Hefð – Sköpun – Framtíð. Hátíðin verður haldin í Anykschiai sem er í ca. 100 km. fjarlægð frá Vilinius. Þar má meðal annarst finna stræsta steininn í Litháen. Litháar hugsa sér að NEATA youth taki þátt í hátíðinni á svipaðan hátt og í Sönderborg. Hópurinn kæmi viku fyrir setningu hátíðarinnar og væri í leiksmiðju alla þá viku sem þau héldu svo áfram með yfir hátíðardagana og enduðu með sýningu.

Allt verður svo eins og leiðbeiningar um NEATA hátíðir segja til um og nánari upplýsingar koma frá Litháum í september nk.

Næstu hátíðir á dagskrá NEATA verða svo Svíþjóð 2020 og Eistland 2022.

3. Ákveðið að halda næsta fund í Eistlandi í janúar ef þörf þykir vegna stöðu NEATA innan AITA/IATA.

Fundi slitið kl. 12.15.

_______________________________________

Hótel Novotel, Monaco, 24.8. 2017 kl. 14.30

1. Rætt um alþjóðlega þátttöku aðildarlandanna frá síðasta fundi.

Allir voru glaðir með NEATA stuttverkahátíðina sem haldin var í Færeyjum sl. haust en þar átti Ísland eitt stuttverk sem Leikfélag Hafnarfjarðar sýndi. Einnig sótti Guðfinna formaður hátíðina og fundi NEATA sem haldnir voru samhliða hátíðinni.

Danir og Eistar ætla báðir að halda sínar stuttverkahátíðir í haust, Danir í september og Eistar í október. Danir hafa gefið út 4 bækur nýlega með nýskrifuðum dönskum stuttverkum.

Mikill áhugi er á eldriborgaraleikhúsi (Senior Teater) í Skandinavíu núna. Svíar buðu til ráðstefnu um efnið í febrúar sl. og skýrsla um efni hennar var send út nýlega. Í kjölfar ráðstefnunnar hafa t.d. bæði Svíar og Danir hafið samstarf um verkefni við Belga og fleiri þjóðir.

Svíar ætla að halda námskeið um minningaleikhús (Reminiscence Teater) í Stokkhílmi 6.-7. nóvember. Við fáum boð um það fljótlega.

Finnar sögðu frá NEATA youth fundinum sem haldinn var í maí sl. Þangað sendum við Maríu Björt Ármannsdóttur. Fundurinn ákvað að halda námskeið í IMPROV næsta vetur.

Finnar stefna að því að halda barnaleikhúshátíð 2020 og bjóða til hennar norrænum sýningum.

Rætt var um stöðu mála í Noregi en eins og kunnugt er var NAT skrifstofunni lokað fyrir nokkrum árum af fjárhagsástæðum og verkefnum hennar deilt á landshlutasamtökin sem eru nokkur í Noregi. Skv. þeim upplýsingum sem fundarmenn höfðu var ekki búist við neinum breytingum á þessu ástandi á næstunni og Normenn verða því áfram óvirkir í NEATA samstarfinu.

Við Guðfinna sögðum frá EDERET verkefninu sem við höfum lofað að taka þátt í næsta sumar í Tolouse í Frakklandi. Þetta eru workshop fyrir krakka frá 13-15 ára. Við erum boðin með Færeyingum þannig að þeir senda kennara og 3 krakka og við sendum umsjónarmann og 3 krakka.

3. Kristiina Omer forseti NEATA skýrði frá því að von væri á opinberu boðið til NEATA um að senda eina sýningu á CIFTA leiklistarhátíð sem haldin verður í Toulouse næsta sumar. NEATA þarf að skipa dómnefnd til að velja úr umsóknum og vorum við beðnar að biðja Togga að sitja í henni.

4. Einnig liggur fyrir erindi frá AITA/IATA um að reyna að finna gestgjafa fyrir næstu alþjóðlegu leiklistarhátíð samtakanna sem halda á árið 2019 en ekki hefur tekist að finna henni stað ennþá.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.00.

Skýrslu ritaði: Vilborg Valgarðsdóttir.