Laugardaginn 13. febrúar frumsýnir Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit hið stórskemmtilega og sígilda verk, Dýrin í Hálsaskógi og verður það á fjölum Freyvangsleikhússins fram á vordaga. Gert er ráð fyrir að sýningar standi fram á sauðburð, því nokkrum dögum fyrir frumsýningu er fullbókað á fyrstu þrjár sýningarnar og talsvert farið að bókast á næstu sýningar. Það er að vanda stór hópur sem kemur að uppsetningu á leikverkinu en leikstjóri er Ingunn Jensdóttir. Stór hópur barna tekur þátt í sýningunni og taka þau m.a. þátt í tónlistarflutningi á sviðinu.

Einn af leikurunum í þessari uppfærslu Freyvangsleikhússins er að leika í Dýrunum í Hálsaskógi í fjórða skiptið. Það er sjálfur Bangsapabbi, leikinn af Jónsteini Aðalsteinssyni sem lék síðast í Dýrunum í Hálsaskógi hjá Leikfélagi Akureyri fyrir um fimmtán árum síðan. Þá lék hann Héraðsstubb bakara. Jónsteinn er enginn nýgræðingur á leiksviðinu, í ár á hann 40 ára leikafmæli en hann byrjaði 1970 hjá Leikfélagi Akureyrar.

Freyvangsleikhúsið er áhugaleikhús þar sem góður hópur fólks vinnur sjálfboðastarf í þágu leiklistarinnar. Það er mikill kraftur og uppgangur hjá félaginu en í fyrra setti félagið upp Rokksöngleikinn Vínland eftir Helga Þórsson. Þar var á ferðinni Disney útgáfa að Íslendingasögunum, mikil sýning sem var valin athyglisverðasta áhugaleiksýningin 2009. Í kjölfarið var sýningin flutt suður yfir heiðar og sett á svið í Þjóðleikhúsinu.

Í haust var sú nýbreytni að setja upp sýningu fyrir áramót og var þá félagið komið með tvær sýningar á leikárinu og Kabarett að auki. Það er líf og fjör í Freyvangi og nú dansa dýrin fyrir leikhúsgesti í Eyjafirði næstu vikurnar.

www.freyvangur.net

{mos_fb_discuss:2}