Leikhúslistamaðurinn Kristján Ingimarsson er höfundur sýningarinnar Frelsarinn sem sýnd verður á Íslandi í lok nóvember. Sýningar verða á Stóra sviði Þjóðleikhússins 22. nóvember og hjá Leikfélagi Akureyrar 24-25. nóvember. Leikhópur Kristjáns, Neander, hefur sýnt sýningu þessa við glimrandi undirtektir í Danmörku að undanförnu. 

Kristján sýndi einleik sinn Mike Attack hér á landi sunnan og norðan heiða á síðasta leikári og snýr nú aftur með stórpólitískt dansk/íslenskt samstarfsverkefni.  Kristján leitar að þessu sinni í heilaga ritningu og spinnur myndræna og líkamlega krefjandi sýningu sem ögrar mörgum lögmálum, skráðum og óskráðum. 

Nú þegar landsmenn hafa fengið nýja biblíuþýðingu í hendurnar velta vafalaust margir fyrir sér hvaða þýðingu trúin sjálf hefur í okkar nútíma samfélagi og hver sé þá okkar frelsari? Kristján hefur, undir áhrifum heilagrar ritningar, unnið leikverk sem spyr spurninga og brýtur þar af leiðandi í bága við eina af mikilvægustu kennisetningum þjóðkirkjunnar: „Þú skalt ekki spyrja.“

Ljóst er að trúarhitinn hefur aukist á undanförnum árum – kristnin, kirkjan og persóna Jesú verða sífellt meira áberandi. Valið á nýjum páfa, viðbrögð almúgans við Da Vinci lyklinum og hið beina samband Bush Bandaríkjaforseta við hið almáttuga í baráttu sinni við ill öfl eru augljós merki þess að sitthvað kraumar undir þessu, að því er virðist, guðlausa yfirborði. Frelsarinn er leikrit sem veltir upp áríðandi spurningum um mannlega tilvist og möguleika okkar í stóra samhenginu.

Aðalsöguhetjan í verkinu fær skilaboð um að hann sé frelsarinn og sé gæddur einstökum hæfileikum. En hvers konar frelsari er hann? Með slík völd og trú á sjálfum sér eru honum allir vegir færir svo lengi sem múgurinn fylgir. Frelsarinn er tilkomumikil sýning, án orða, þar sem blandað er saman leiklist, dansi og bardagaíþróttum.

Leikarar í sýningunni auk Kristjáns eru Bo Madvig og Camilla Marienhof. Leikstjóri sýningarinnar er Jón Páll Eyjólfsson en honum til aðstoðar er Guðrún Þórsdóttir. Leikmynd gerir Kristian Knudsen, hljóðmynd og tónlist gerir Rúnar Þór Magnússon en hönnuður lýsingar er Aðalsteinn Stefánsson. Búningahönnuður er Julie Forchhammer og verkefnissstjóri Gitte Nielsen.

Leiksýningin Frelsarinn (eða Frelserens Genkomst) var búin til á Akureyri veturinn 06/07 með styrk frá danska leiklistarráðinu, Wilhelm Hansens Fonden, Akureyrarbæ, Glitni, Icelandair, ofl. Fjöldi íslenskra og danskra listamanna komu til Akureyrar og unnu að sýningunni í rúma tvo mánuði Sýningin var frumsýnd við frábærar undirtektir í Kaupmannahöfn þann 7. mars. 

Kristján Ingimarsson hefur verið starfað við leiklist í rúm tíu ár. Hann lærði í Danmörku þar sem hann stofnaði leikhópinn Neander, en hann er listrænn stjórnandi hans. Kristján hefur skrifað, leikstýrt og leikið í fjölda verka og hlotið mikið lof fyrir, bæði hér heima og í Danmörku. Hann hefur í þrígang verið tilnefndur til dönsku Reumert-leiklistarverðlaunanna. Hann hefur síðustu fimm árin ferðast um Evrópu með sýningar sínar. Kristján er aukinheldur núverandi bæjarlistamaður Akureyrar. Á síðasta ári lék hann í  leikritinu 8 konum í Þjóðleikhúsinu og sýndi einleik sinn Mike Attack í Borgarleikhúsinu og hjá Leikfélagi Akureyrar við frábærar undirtektir.

Kynningarmyndband úr sýningunni má finna á heimasíðunni: 
http://leikhusid.blog.is/blog/leikhusid/video/2365/