Leikhópurinn Artik stendur nú að uppsetningu á nýja leikverkinu Skjaldmeyjar hafsins, sem frumsýnt verður í Samkomuhúsinu í lok mars. Verkið er sannsögulegt leikverk um líf eiginkvenna sjómanna og er fyrsta frumsýningin í röð gróðurhúsaverkefna Leikfélags Akureyrar.

Verkið er unnið eftir aðferð sem á ensku kallast Verbatim og er best þýtt sem beinheimildaverk, en þá eru viðtöl tekin við fólk sem tengist efninu og þau síðan klippt saman til að mynda eina heild, án þess að orðalagi sé breytt. Skjaldmeyjar hafsins byggir á viðtölum við eiginkonur sjómanna á norður- og austurlandi, og var efni úr 10 viðtölum notað til þess að skapa þrjár heildstæðar persónur. Við skyggnumst inn í líf þessara kvenna, kynnumst þeirra sýn á lífið og hvernig þær takast á við óvissuna, óttann og sorgina þegar háska ber að úti á hafi og þær eru í landi. Hlutverkin í Skjaldmeyjum hafsins eru í höndum ungra og upprennandi leikkvenna sem allar hafa menntað sig í leiklist erlendis og munu þær þreyta frumraun sína á leiklistarsviðinu á Akureyri í sýningunni. Þetta eru þær Vala Fannell, Jónína Björt Gunnarsdóttir og Katrín Mist Haraldsdóttir.

Einn af stofnendum leikhópsins, Jenný Lára Arnórsdóttir, er höfundur og leikstjóri verksins. Hún hefur reynslu af þessari vinnuaðferð en hún hefur áður unnið Verbatim-verkið Elska – ástarsögur Norðlendinga, sem var ein vinsælasta gestasýningin hjá LA haustið 2016. Þá var umfjöllunarefnið ástin en í þetta sinn valdi hún að fjalla um ónefndar hetjur hafsins, eiginkonur sjómanna.

Sjómennska hefur verið alla tíð verið stór partur af íslensku samfélagi og flestir þekkja einhverjar sögur úr þessari mikilvægu atvinnugrein Íslendinga. Hins vegar hefur farið minna fyrir sögum af eiginkonunum, sem sjá um heimili, börn og buru á meðan mennirnir eru í löngum túrum. Þær sem bíða milli vonar og ótta í öllum veðrum og eru jafnvel sjálfar að takast á við sína eigin erfiðleika um leið og þær eru stoð og stytta sjómannsins, fjölskyldunnar og heimilisins. Markmið verksins er því að skoða menningu sjómennskunnar út frá margvíslegum sjónarhornum með því að varpa ljósi á þessar sögur.

Til verkefnisins hefur leikhópurinn fengið styrki frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra auk listamannalauna frá launasjóði sviðslistafólks. 

Aðeins eru áætlaðar þrjár sýningar, 28. mars, 5. apríl og 12. apríl.

Miðaverð er 3.500 kr og fer miðasala fram á mak.is og í miðasölu MAk í Hofi, s. 450-1000.