Leikfélag Hörgdæla frumsýnir tryllingsfarsann Sex í sveit eftir Marc Camelotti fimmtudaginn 1. mars. Hörður Sigurðarson leikstýrir verkinu sem er í þýðingu og staðfærslu Gísla Rúnars Jónssonar. Sex leikarar taka þátt í uppsetningunni en auk þeirra kemur fjöldi annarra við sögu bak við tjöldin.
Benedikt býður hjákonunni Sóleyju í bústaðinn norður í landi þegar eiginkonan Þórunn ákveður óvænt að vera þar líka. Benedikt neyðir Ragnar besta vin sinn til að þykjast vera kærasti Sóleyjar svo Þórunni gruni ekki neitt en það sem Benedikt veit ekki er að Ragnar og Þórunn eiga í ástarsambandi. Og þetta er bara upphafið á flækjunni.
Ljósahönnun er í höndum Þóris Gunnars Valgeirssonar, Svana Axelsdóttir sér um búninga, Monika Stefánsdóttir annast hár og förðun og einvalalið kemur að hönnun og smíði leikmyndar.
Sýnt er að Melum í Hörgársveit og miðapantanir eru í síma 666 0170 og 666 0180.