Leikdeild Umf. Skallagríms frumsýndi söng- og gamanleikinn Stöngin inn í Lyngbrekku föstudaginn 14. mars sl. við gríðargóðar undirtektir áhorfenda sem fylltu salinn og skemmtu sér konunglega.
Stöngin inn er bráðskemmtilegt nýtt verk eftir Guðmund Ólafsson leikara. Stöngin inn var frumsýnd í fyrsta sinn fyrir ári hjá sameiginlegu leikfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og hlaut á síðasta ári verðlaun sem athyglisverðasta leiksýning áhugaleikfélaganna og var í kjölfarið sýnt i Þjóðleikhúsinu.
„Leikritið vísar í forngríska gamanleikinn Lýsiströtu þar sem konurnar reyna að fá karlana til að láta af stríðsrekstri með því að setja þá í kynlífsbann, en hér eru það konurnar í litlu bæjarfélagi sem freista þess að fá karlana til að sýna sér meiri athygli, og hætta að horfa á fótbolta í tíma og ótíma, með kynsvelti. Hugmyndin virkar þrælvel og er vel heppnað og gamansamt innlegg í umræðuna um samskipti kynjanna.“ (úr umsögn dómnefndar Þjóðleikhússins um verkið).
Leikarar á sviðinu eru sextán talsins og þar af eru átta nýliðar í Leikdeild Umf. Skallagríms en alls koma yfir þrjátíu manns að sýningunni með einum eða öðrum hætti. Samlestur hófst í byrjun desember. Falleg og fjörug Abbalög leika stórt hlutverk og var leikhópurinn við stífar söngæfingar hjá Theodóru Þorsteinsdóttur í Tónlistarskóla Borgarfjarðar í janúar. Í febrúar tóku við sviðsæfingar í Lyngbrekku undir leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar leikstjóra sem hlotið hefur frábæra dóma fyrir leiksýningar sem hann hefur stýrt á undanförnum árum. Birna Hafstein stýrir dansatriðum. Þriggja manna hljómsveit leikur með á sýningum undir stjórn Steinunnar Pálsdóttur.
„… Frábær sýning í alla staði og alveg drepfyndin. Söngur góður, jafn og skemmtilegur hópur og frábært handrit. Ekki spillti að lögin sem sungin eru koma frá ABBA.“ (MM Skessuhorni)
Kaffiveitingar verða til sölu á sýningum.
Enginn posi er á staðnum.
Almennt miðaverð er kr. 2.500
Hópar (10 o.fl.) og eldri borgarar fá miðann á kr. 2.000
Miðapantanir eru í síma 846 2293 og á midi.is