Tvö pláss eru enn laus á námskeiðið Leikritun II í Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga í sumar. Kennari er Karl Ágúst Úlfsson.

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sótt Leikritun I eða sambærilegt námskeið eða hafa umtalsverða reynslu af ritun og vinnslu leiktexta. Einkum eru þeir sem eru með verk í smíðum, hvort sem það er komið langt á veg eða skammt, hvattir til að taka þátt í námskeiðinu og nýta sér jákvætt, skapandi og styðjandi andrúmsloft.

Umsóknarfrestur er framlengdur til 22. apríl.

Um námskeiðið: Rifjaðar verða upp helstu grunnreglur leikritsins, en jafnframt farið allnáið í undirbúningsvinnu höfundarins, byggingarefni sögunnar og uppbyggingu lengri verka. Burtséð frá lengd verkanna sem höfundar verða með í smíðum munum við að endingu velja hluta hvers verks fyrir sig til fullvinnslu í samvinnu við leikara og leikstjóra.

Karl Ágúst Úlfsson lauk námi við Leiklistarskóla Íslands 1981 og meistaragráðu í leikritun og handritagerð frá Ohio University 1994. Hann hefur starfað sem leikari, leikstjóri, þýðandi og höfundur við íslensk og erlend leikhús, útvarp, sjónvarp og kvikmyndir í yfir 30 ár. Karl stofnaði Spaugstofuna ásamt félögum sínum árið 1985 og hefur síðan skrifað hátt á fimmta hundrað handrit að sjónvarps- og útvarpsþáttum. Leikrit og söngleikir eftir hann hafa verið sett á svið bæði austan hafs og vestan. Hann hefur einnig kennt skapandi skrif og leikritun við Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Leiklistarskóla Færeyja og Mesa State College í Colorado. Þetta er í fjórða sinn sem Karl Ágúst kennir við skólann.

Húnavallaskóli, eða Hótel Húnavellir eins og hann heitir á sumrin, er staðsettur í Húnavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þangað eru 239 km. frá Reykjavík, 118 eða 156 km. frá Akureyri (eftir því hvaða leið er farin) og fjarlægðin frá Blönduósi er um 15 km.

Starfstími skólans á þessu ári er frá 14. til 22. júní. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

Skólasetning er laugardaginn 14. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Húnavöllum kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00, ekki er boðið uppá kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 22. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.

Aðstaða að Húnavöllum: Svefnherbergin eru búin 2 rúmum án rúmfata,skáp, litlu borði og tveim stólum. Góðum dýnum verður bætt inn á stærstu herbergin og þau þannig gerð þriggja manna. Nemendur hafi með sér handklæði, sæng og kodda ásamt rúmfötum, eða svefnpoka. Sundlaug og heitur pottur eru á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.

Þátttökugjald er kr.78.000. Gjaldið skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn. Staðfestingargjald er kr. 35.000. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Greiða skal inn á reikning 334-26-5463, kt. 440169-0239 og láta senda staðfestingu á info@leiklist.is. Hægt er að greiða með greiðslukorti símleiðis.

Umsóknum skal skila fyrir 22. apríl á netfangið info@leiklist.is og um leið þarf að leggja staðfestingargjaldið, kr. 35.000.- inn á 334-26-5463, kt. 440169-0239. Eftirtaldar upplýsingar þarf að senda í tölvupósti: Hvaða námskeið er verið að sækja um, nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, póstnúmer, bæjarfélag, netfang og símanúmer. Þar sem krafist er undirbúningsnámskeiða eða reynslu skal láta ferilskrá fylgja umsókn.

Skólameistarar eru ­­ Dýrleif Jónsdóttir og Hrefna Friðriksdóttir.

Bæklingur skólans starfsárið 2014 er hér á PDF formi.