Leikfélag Akureyrar hefur hafið er forsölu á söngleikinn Litla hryllingsbúðin sem frumsýndur verður 24. mars n.k. Boðið er upp á sérstakt tilboð á fyrstu 1000 miðunum sem seljast í forsölu, því þá fylgir geisladiskurinn með tónlistinni úr sýningunni með í kaupbæti.
Innan skamms kemur út geisladiskur með tónlistinni úr verkinu. Diskurinn hefur að geyma 20 lög og er fyrsta lagið nú þegar farið í spilun á útvarpsstöðvum. Það er lagið Gemmér í flutningi Andreu Gylfadóttur og Guðjóns Davíðs Karlssonar.
Litla hryllingsbúðin er sígildur rokksöngleikur sem hefur farið sigurför um heiminn síðan hann var frumsýndur fyrir 25 árum. Enda er sagan krassandi, persónurnar heillandi, tónlistin grípandi og húmorinn allsráðandi.
Erkilúðinn Baldur eyðir fábrotnum dögunum í blómabúðinni hans Markúsar. Hann lætur sig dreyma um ástir Auðar sem er viðskiptavinur í búðinni. Dag einn, rétt fyrir sólsetur uppgötvar Baldur undarlega plöntu sem hann nefnir Auði II í höfuðið á sinni heittelskuðu. Áður en langt um líður kemur í ljós að plantan hefur undarlega eiginleika og gríðalega matarlyst. Og hún vex og vex. Plantan vekur óskipta athygli og viðskiptin blómstra sem aldrei fyrr. Inn í söguna blandast svo kærasti Auðar, tannlæknir með kvalalosta, og atburðarrásin tekur óvænta stefnu…
Höfundar: Howard Ashman og Alan Menken
Byggt á kvikmynd Roger Corman og handriti Charles Griffith
Leikstjórn: Magnús Geir Þórðarson
Leikmynd og búningar: Halla Gunnarsdóttir
Listræn ráðgjöf: Snorri Freyr Hilmarsson
Tónlistarstjórn: Kristján Edelstein
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Danshöfundur: Ástrós Gunnarsdóttir
Upphaflega sviðsett af WPA leikhúsinu (framleiðandi: Kyle, Renick)
Leikarar: Andrea Gylfadóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Þráinn Karlsson, Álfrún Helga Örnólfsdótir, Esther Talía Casey, Ardís Ólöf Víkingsdóttir og Guðjón Þorsteinn Pálmarsson.
Sýningin er sett upp af Leikfélagi Akureyrar í samstarfi við Íslensku óperuna.