Leikhópurinn Silfurtunglið frumsýndi fyrir skemmstu leikritið Fool 4 love eftir bandaríska leikskáldið Sam Shepard í leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar. Tónlistina í verkinu samdi og flytur KK. Fool 4 love er sýnt í Austurbæ

Fool 4 Love eftir Sam Shepard trónir að margra mati á toppnum sem besta nútímaleikrit Bandaríkjamanna. Verkið er ástríðufullt og einkennist af hraða, spennu og beittum húmor. Fyrrum elskendur hittast á yfirgefnu vegamóteli í útjaðri Mojave eyðimerkurinnar. May er á flótta undan Eddie en þrátt fyrir erfiðleika og ofbeldisfull samskiptin er ástin ekki langt undan. Eldri maður situr á veröndinni og talar við áhorfendur en nærvera hans er sveipuð dularfullum leyndarmálum fortíðarinnar. Skyndilega rennur bíll í hlaðið og það er skotið úr haglabyssu. Af hverju geta May og Eddie ekki verið saman?

Sam Shepard skrifaði Fool for Love árið 1983. Það ár vann verkið bandarísku Obbie Award verðlaunin sem besta nýja leikritið og verkið hefur farið sigurför um allan heim. Árið 1985 gerði Robert Altman kvikmynd eftir leikritinu sem var valin besta myndin á Cannes kvikmyndahátíðinni það árið. Sjúk í ást eða Fool for love sló í gegn í Appollo leikhúsinu í London í fyrra með kvikmyndastjörnunni Juliette Lewis í hlutverki May

Að sýningunni Fool 4 Love stendur nýstofnað leikfélag, Silfurtunglið, sem hýsir metnaðarfullt leikhúsfólk. Leikstjórinn er Jón Gunnar Þórðarson en hann útskrifaðist sem leikstjóri frá hinum virta Drama Centre í London í fyrra og hefur síðan þá leikstýrt 4 atvinnusýningum. KK snýr nú aftur í leikhúsið til að semja tónlist við verkið en þjóðin hefur enn dálæti á þeim lögum sem KK samdi fyrir leikritið Þrúgur reiðinnar sem var sett upp í Þjóðleikhúsinu. Með hlutverk May fer leikkonan Þóra Karítas sem þreytti frumraun sína í Svörtum Ketti hjá Leikfélagi Akureyrar fyrr á árinu og fer nú með ýmis hlutverk í þáttaröðinni Stelpurnar á Stöð 2. Sveinn Ólafur Gunnarsson fer með hlutverk Eddie en hann hefur leikið í Loka Laufeyjarson í Gunnlaðarsögu í Hafnafjarðarleikhúsinu, kvikmyndinni Mýrin og í væntanlegri sjónvarpsþáttaröð sem ber heitið Pressan. Magnús Guðmundsson fer með hlutverk Martin en Magnús er einnig meðlimur í Stompleikhúsinu.

Hægt er að panta miða í síma 551 4700 eða kaupa á midi.is

Höfundur: Sam Shepard
Leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson
Leikarar: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Þóra Karítas, Magnús Guðmundsson og KK
Tónlistarstjórn: KK
Ljósahönnun: Jón Þorgeir Kristjánsson
Leikmyndahönnun: Mekkín Ragnarsdóttir
Aðstoðarleikstjóri: Valdís Arnardóttir
Hljóðhönnun: Sindri Þórarinsson
Hreyfihönnun: Hannes Þór Egilsson
Búningahönnun: Rannveig Eva Karlsdóttir

 {mos_fb_discuss:2}