Leikfélag Kópavogs er með margt spennandi á prjónunum á komandi leikári. Í september verður í boði leiksmiðja sem er hugsuð fyrir byrjendur og styttra komna í leiklist. Unglingadeild félagsins hefur störf 19. september með námskeiði undir stjórn Grímu Kristjánsdóttur og í kjölfarið verður sett upp sýning sem áætlað er að frumsýna um miðjan nóvember. Í október verður haldið 3ja daga námskeið fyrir vana leikara undir stjórn Rúnars Guðbrandssonar. Í nóvember hefjast síðan æfingar fyrir nýtt leikverk með frumsaminni tónlist sem frumsýnt verður um mánaðamótin jan-feb. 

 

Verkið ber vinnuheitið Hringurinn
Fljótlega eftir áramót heldur félagið svo sitt árlega Stjörnuljósakvöld sem er skemmtikvöld með blandaðri dagskrá. 
Í apríl er síðan stefnt að vorverkefni sem enn er í mótun og verður nánar auglýst síðar.

Námskeið fyrir byrjendur

Í september verður í boði leiksmiðja sem er aðallega hugsuð fyrir nýja félaga með áherslu á byrjendur og styttra komna í leiklist. Farið verður í grunnatriði sviðsleiks og áhersla lögð á praktíska nálgun. Í lok leiksmiðjunnar verða æfðir upp stuttir leikþættir sem frumsýndir verða í byrjun nóvember. 
Leiðbeinandi er Hörður Sigurðarson sem hefur starfað sem leikstjóri hjá leikfélögum víða um land en þó aðallega hjá Leikfélagi Kópavogs undanfarin ár. Hann setti m.a. upp farsann Bót og betrun hjá félaginu í fyrra. 
Athugið að leiksmiðjan er ætluð 21 árs og eldri. Leiksmiðjan hefst mánudaginn 19. september og þeir sem hafa áhuga á að vera með þurfa að senda póst á lk@kopleik.is með nafni og símanúmeri.

 

rundargudbNámskeið fyrir vana leikara

Í október verður haldið 3ja daga námskeið fyrir vana leikara undir stjórn Rúnars Guðbrandssonar sem á að baki langan og farsælan feril sem leikstjóri og leiklistarkennari. Námskeiðið verður laugardag 8. október, sunnudag 9. október og þriðjudag 11. október. 
Þeir sem hafa áhuga á að vera með þurfa að senda póst á  lk@kopleik.is með nafni og símanúmeri merkt Námskeið – Rúnar og fá þá nánari upplýsingar. Námskeiðið er ókeypis fyrir skuldlausa félaga LK en ef laus sæti verða gefst utanfélagsmönnum kostur á að taka þátt.

Rúnar Guðbrandsson nam leiklist í Danmörku og starfaði þar sem  leikari um árabil, með ýmsum leikhópum. Frekari þjálfun hlaut hann  m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro og hjá leikhópi Jerzy  Grotowskis í Wroclaw í Póllandi. Rúnar hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara, auk ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar. Hann var fyrsti prófessor í leiktúlkun við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Rúnar var einn af stofnfélögum Lab Loka 1992 og hefur síðan verið helsti hugmyndafræðingur og leikstjóri hópsins (www.labloki.is).

 

Unglingar_frontUnglingadeild LK

Unglingadeild leikfélagsins hefur störf þann 19. september með námskeiði undir stjórnGrímu Kristjánsdóttur sem setti upp hina frumlegu og skemmtilegu sýningu Beðið eftir græna kalllinum í fyrra. Í kjölfarið á námskeiðinu verður sett upp sýning sem áætlað er að frumsýna um miðjan nóvember. 
Unglingadeildin er opin þeim sem eru í 8.9. og 10. bekk grunnskóla og 1. bekk framhaldsskóla. Þeir sem vilja taka þátt eða óska eftir nánari upplýsingum skulu senda póst á lk@kopleik.is.  Starf Unglingadeildar er opið öllum þeim sem fæddir eru á árunum 1995-1998 en unglingar sem búa í Kópavogi ganga fyrir. 

 

Nánari upplýsingar um starfsemi Leikfélags Kópavogs má fá á vef félagsins www.kopleik.is