Þjóðleikhúsið frumsýnir á föstudaginn Finnska hestinn en leikritið sló rækilega í gegn í heimalandinu þegar það var fyrst sýnt árið 2004. Síðan þá hefur leikritið verið sýnt í fjölmörgum uppsetningum í heimalandinu sem og víðar í Evrópu og Bandaríkjunum. Finnski hesturinn er bráðfyndið og snargeggjað verk um mergjað fjölskyldulíf og mál sem brenna á Íslendingum í dag. Húmorinn er kaldhamraður finnskur húmor eins og hann gerist bestur.

Sögusviðið er bóndabær í Finnlandi og persónusafnið er vægast sagt litskrúðugt. Þegar syninum tekst að eygja glufu í ESB-reglugerðakerfinu og fá föðurinn með sér í það leynimakk að safna saman nokkrum aflóga hestum í sveitinni, og selja þá á fæti til ítölsku mafíunnar, fer af stað aldeilis kostuleg atburðarás.

„Sólin skein í heiði, gufan steig hljóðlega upp af skítahaugnum og ég hugsaði mér mér að maður hlyti einhvernveginn að geta losnað við Brussel.“

Höfundurinn, Sirkku Peltola er ein af fremstu leikhúslistakonum Finnlands. Hún starfar bæði sem leikstjóri og leikskáld, og hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga í sínu heimalandi. Hún hefur skrifað tvö ný leikrit um fólkið í Finnska hestinum, og virðist ekkert láta vera á vinsældum þessara persóna.

Leikstjóri er María Reyndal og Sigurður Karlsson þýddi verkið. Leikarar í sýningunni eru þau Harpa Arnardóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Kjartan Guðjónsson, Lára Sveinsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Þórunn Lárusdóttir.

Höfundur leikmyndar er Ilmur Stefánsdóttir, Margrét Einarsdóttir hannar búninga, Lárus Björnsson sér um lýsingu og Pierre-Alain skapar hljóðmynd.  

{mos_fb_discuss:2}