Þjóðleikhúsið frumsýnir Kardemommbæinn eftir Thorbjörn Egner nk. laugardag, 21. febrúar, á Stóra sviðinu. Leikstjóri sýningarinnar er Selma Björnsdóttir. Íbúar Kardemommubæjarins eiga sér vísan stað í hjörtum íslenskra barna og nú færir ný kynslóð leikhúslistamanna okkur þetta dásamlega verk. Boðskapur verksins um mikilvægi umburðarlyndis og heiðarleika á alltaf við, og vísast geta ræningjarnir þrír, Soffía frænka og aðrir íbúar Kardemommubæjar kennt okkur öllum sitthvað gagnlegt.

Þetta er í fimmta sinn sem verkið er sett upp hér í Þjóðleikhúsinu og í gegnum tíðina hafa yfir 160.000 gestir heimsótt Kardemommubæinn hér.  Allt frá fyrstu sýningunni á Kardemommubænum árið 1960 áttu Þjóðleikhúsið og Thorbjörn Egner gott og náið samstarf. Egner gerði leikmynd og búninga við nokkrar sýningar á eigin verkum í Þjóðleikhúsinu, og gaf Þjóðleikhúsinu búninga- og leikmyndateikningar sínar, en nokkrar þeirra getur nú að líta á göngum leikhússins.

Rúmlega þrjátíu leikarar og börn á ýmsum aldri taka þátt í uppfærslunni nú. Í hlutverkum ræningjanna eru þeir Örn Árnason, Rúnar Freyr Gíslason og Kjartan Guðjónsson. Örn fer nú með hlutverk Kaspers, en hann hefur áður leikið í tveimur uppfærslum á Kardemommubænum, fyrst í hlutverki Jónatans og þá Jespers, og hefur hann því leikið alla ræningjana þrjá. Edda Björg Eyjólfsdóttir leikur svarkinn Soffíu frænku, Sigurður Sigurjónsson leikur Tóbías í turninum og Baldur Trausti Hreinsson leikur Bastían bæjarfógeta. Nánari upplýsingar um hlutverkaskipan fylgja hér á eftir.

Höfundur leikmyndar sýningarinnar er Brian Pilkington, María Ólafsdóttir hannar búninga og Jóhann G. Jóhannsson annast tónlistarstjórn og útsetningar. Birna og Guðfinna Björnsdætur sjá um dans- og sviðshreyfingar og lýsingu hanna Lárus Björnsson og Ólafur Ágúst Stefánsson. Hulda Valtýsdóttir þýddi verkið en söngtexta þýddi Kristján frá Djúpalæk.

{mos_fb_discuss:2}