thjodleikhus_logo.gifFebrúar er leikhúsmánuður unga fólksins í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Að baki hugmyndinni býr sú sannfæring að leikhúsið eigi brýnt erindi við fólk á öllum aldri og einnig að það sé leikhúsunum nauðsynlegt að eiga samtal við ungt fólk og efla leikhúsaðsókn meðal yngri áhorfenda. Leikhúsin munu af þessu tilefni leggja áherslu á að kynna dagskrá sína og starf fyrir ungu fólki og auka framboð á viðburðum sem geta höfðað sérstaklega til þess.

Fimmtánhundruð krónur í febrúar
Í tilefni af því að febrúar er leikhúsmánuður unga fólksins býður Þjóðleikhúsið upp á sérstaka dagskrá fyrir ungt fólk, auk þess sem ungu fólki býðst sérlega hagstætt miðaverð í leikhúsið í febrúarmánuði. Í febrúar getur fólk á aldrinum 15-25 ára pantað miða og valið sér sæti á allar sýningar Þjóðleikhússins fyrir aðeins 1500 krónur. Athugið að tilboðið gildir ekki aðeins fyrir sæti sem eru pöntuð samdægurs, heldur er hægt að panta á sýningar fyrirfram.

Boðið í leikhús
Í tengslum við Vetrarhátíð í Reykjavík verður ungu fóki boðið endurgjaldslaust á leiksýninguna norway.today, en það er sýning sem Farandleikhús Þjóðleikhússins sýnir þessa dagana í framhaldsskólum á landsbyggðinni. Boðssýningin er 8. febrúar en síðan hefjast sýningar fyrir framhaldsskóla og almenning á höfuðborgarsvæðinu Í Kúlunni, Lindargötu 7. Einnig verður yngstu leikhúsgestunum boðið HVENÆR á sprellfjörugu barnasýninguna Gott kvöld sem sýnd er í Kúlunni. Sýningum á Góðu kvöldi lýkur í febrúar.

Opið hús
Það verður „Opið hús“ í Þjóðleikhúsinu á Vetrarhátíð, laugardaginn 9. febrúar kl. 13-16. Þar verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá, bæði á Stóra sviðinu og í Leikhúskjallaranum, fyrir alla aldurshópa og kynntar verða sýningar sem senn koma á fjalirnar.

Örleikritasamkeppni
Hin árlega örleikritunarsamkeppni framhaldsskólanema fer fram í febrúar og verða úrslit hennar kunngjörð á Stóra sviðinu 1. mars. Þetta er fimmta árið sem samkeppnin er haldin og nýtur hún sívaxandi vinsælda. Samkeppnin er í samstarfi við Listaháskóla Íslands.

Gjöf í alla grunnskóla landsins
Fræðsludeild Þjóðleikhússins sendir nú um mánaðarmótin öllum grunnskólum landsins tónlistargjöf og fræðslupakka. Þetta er geisladiskur með tónlist úr ævintýrasöngleiknum sívinsæla Skilaboðaskjóðunni, nótur af nokkrum lögum og ítarlegar hugmyndir til nota í kennslu. Nánari upplýsingar um fræðsludeildina má finna á heimasíðunni www.leikhusid.is.

Starfskynningar og heimsóknir
Í febrúar annast Fræðsludeild Þjóðleihússins fjölmargar starfskynningar fyrir grunnskólanema og einnig koma grunn- og leikskólanemendur í kynningarheimsókir í leikhúsið og upplifa stemningu baksviðs og kynnast töfrum leikhúsheimsins.

 {mos_fb_discuss:3}