Föstudaginn 10. október kl. 20:00 frumsýnir Leikfélag Reykjavíkur fjölskylduleikritið Fólkið í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur.

Hjartnæm saga af skrautlegu lífi fólks í blokk í Reykjavík sem ákveður að setja upp söngleik og efniviðurinn er það sjálft. Hárfinnur hárfíni er í forsvari fyrir hljómsveitina Sóna sem æfir stíft í kjallaranum á meðan Robbi húsvörður reynir ólmur að koma í veg fyrir að söngleikurinn komist á koppinn. Sjarmörinn Hannes reynir allt hvað hann getur að ganga í augun á Söru. Tekst þeim að frumsýna söngleikinn? Ná Sara og Hannes saman? Og hver á skjaldbökuna í baðkarinu?!

Fólkið í blokkinni er hugarfóstur Ólafs Hauks Símonarsonar. Persónurnar hafa kynnt sig fyrir landanum í bókum og í lögum en nú er komið að því aðdáendur þeirra sjái þær lifna við á sviðinu. Ferlið hefur verið langt og strangt og krefjandi útfærslur leikmyndar hafa að sögn leikstjórans kostað mikla vinnu. 

Ólafur Haukur Símonarson hefur á farsælum ferli skrifað sig inn í hjarta þóðarinnar, bæði með leikritum sínum og ógleymanlegum sönglögum. Hér sameinar Ólafur Haukur þetta tvennt, verkið byggir á vinsælum dægurlögum og smásögum um líf fólksins í blokkinni sem öðlast nýtt líf á leiksviðinu.

Tónlistin úr leikritinu er væntanleg á geisladiski frá Senu. Meðal laga á disknum: Fólkið í blokkinni, Hárfinnur hárfíni, Góða nótt, Lyftan ásamt nýjum lögum eins og Húsbíll, Hver er ég, Það er vor og Robbi.

Leikendur sýningarinnar eru Guðjón Davíð Karlsson, Halldór Gylfason, Halldóra Geirharðsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Jóhann Sigurðsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Magnús Guðmundsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir og Sara Marti Guðmundsdóttir. Leikmynd gerir Vytautas Narbutas en Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsir. Hljóðstjórn annast Sigurvald Ívar Helgason en búninga gerir Filippía I. Elísdóttir.

{mos_fb_discuss:2}