Samningar hafa náðst um leikferð Borgarleikhússins og Vesturports með leikritið Faust í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar til hins virta leikhúss Young Vic í London komandi haust. Frumsýnt verður 1. október og verður sýnt í sex vikur samfleytt. Sýningin verður sýnd sjö sinnum í viku og er því ljóst að 42 sýningar á uppsetningunni verða í boði fyrir erlenda leikhúsgesti.
Sýningin verður hluti af afmælisdagskrá Young Vic leikhússins sem fagnar 40 ár afmæli sínu í haust. Leikhússtjóri Young Vic, David Lan, leikskáld og leikstjóri, var viðstaddur frumsýningu Faust í janúar sl. Í kjölfarið óskaði hann eftir því að Faust yrði 40 ára afmælissýning Young Vic leikhússins. Sýningarhaldið í London er augljóslega mikil viðurkenning fyrir íslenskt leikhúsfólk og aðstandendur sýningarinnar.
Þetta er fimmta sýningin sem Borgarleikhúsið og Vesturport vinna saman. Fyrri sýningar voru Rómeó og Júlía, Woyzeck, Kommúnan og Ást. Samvinnan hefur borið ríkulegan ávöxt og sýningarnar ferðast víða um heim og hlotið mikið lof.
Uppsetning Borgarleikhússins og Vesturports á Faust fékk afar góðar umsagnir gagnrýnenda þegar verkið var frumsýnt í janúar á Stóra sviðinu. Sýnt hefur verið fyrir fullu húsi síðan. Sýningum lýkur í vor og hefst þá undirbúningur fyrir ferðalagið til Englands.
Það er stór aðgerð að flytja tæknilega flóknar sýningar á milli landa. Tæknifólk Borgarleikhússins er orðið vel æft í að finna lausnir sem henta ólíkum leikhúsum og er þá hvergi gefið eftir í gæðum sýningarinnar. Leiksýning eins og Faust, þar sem unnið er með allt leikrýmið, gerir miklar kröfur til leikmyndahönnuðarins Axels Hallkells Jóhannessonar og tæknifólks Borgarleikhússins. Vel hefur tekist til með að leysa tæknileg atriði Faust svo sýningin geti blómstrað á sviði Young Vic í október og nóvember eins og hún gerir nú á Stóra sviði Borgarleikhúsins.
{mos_fb_discuss:2}