Sýningar á Faust uppsetningu Vesturports og Borgarleikhússins á BAM hátíðinni í New York hefjast nk. miðvikudag 12. desember. BAM er stærsta og þekktasta leiklistarhátíð Bandaríkjanna sem haldin er ár hvert í New York. Alls eru fyrirhugaðar 6 sýningar á Faust á hátíðinni, dagana 12.–16. desember. Hópur listamanna og tæknifólks frá Vesturporti og Borgarleikhúsinu hélt utan á laugardag og vinnur nú hörðum höndum að uppsetningu sýningarinnar við BAM leikhúsið í Brooklyn. Þetta er í þriðja sinn sem Vesturport er boðið á hátíðina en Woyzeck var þar sýnt í október 2008 og Hamskiptin í desember 2010.

Faust var jólasýning Borgarleikhússins 2009 hlaut einróma lof íslenskra gagnrýnenda og var tilnefnd til átta Grímuverðlauna, m.a. sem sýning ársins og áhorfendasýning ársins. Það gekk fyrir fullu húsi fram á vor og var tekið upp að nýju leikárið 2010 – 2011. Verkið hefur verið sýnt víða um heim við fádæa undirtektir áhorfenda og gagnrýnenda. Haustið 2010 var það sýnt í hinu virta Young Vic leikhúsi sem hápunktur í 40 ára afmælisdagskrá leikhússins. Uppselt var á allar sýningar verksins en íslenski hópurinn lék sjö sýningar í viku. Í kjölfarið fylgdu sýningar í Þýskalandi, Rússlandi og Kóreu.

Sagan Faust er kominn er á efri ár þegar hann uppgötvar að hamingjan verður ekki höndluð með bóklestri eingöngu. Mefistó freistar hans og segist geta kynnt hann fyrir sannri hamingju í hinu ljúfa lífi skemmtunar og nautna. Faust tekur boðinu enda úrkula vonar um að sanna hamingju sé að finna. Hann er viss í sinni sök og tekur veðmáli við skratta þennan þar sem sál Faust er að veði; finni hann hamingjuna undir handleiðslu Mefistós, þá eignast djöfullinn sál hans. Niðurstaða veðmálsins verður tvísýn þegar Faust kynnist hinni hreinu, saklausu Grétu sem dregin er inn í eilífa baráttu góðs og ills. Þetta er magnað verk um öflin sem takast á í manninum og heiminum, um hreina ást, sanna hamingju og eilífa leit.

Verkið Leikgerðin af Faust er skrifuð af Birni Hlyni, Gísla Erni, Nínu Dögg, Víking og Carl Grose – innblásin af samnefndu leikriti Goethes. Sagan er færð til samtímans og við kynnumst draumum gamals manns sem kominn er á dvalarheimili en heillast af fegurð æskunnar sem hann leyfði sér aldrei að njóta. Sagan af Faust er aldagömul og hefur verið uppspretta fjölmargra listamanna sem hafa ekki einungis samið ótal leikrit af ýmsum stærðum og gerðum heldur einnig skáldsögur, óperur, ljóð, dansa og kvikmyndir. Vesturport hlutu á síðasta ári ein virtustu leikhúsverðlaun heims, The European Theatre Prize. Faust ber sterk einkenni Vestrports, tilfinningaþrungin saga, sterk sjónræn upplifun og öllum meðulum leikhússins beitt.