Þessi frábæri gamanleikur var frumsýndur 11. mars fyrir fullu húsi og fékk geysigóðar viðtökur. Gamanleikurinn er bandarískur að uppruna eftir þá LaZebnik og Day, en hefur verið íslenskaður og staðfærður af Spaugstofumanninum Karli Ágústi Úlfssyni. Leikstjóri er María Sigurðardóttir, leikhússtjóri LA og leikarar eru Edda Björg Eyjólfsdóttir og Jóhann G. Jóhannsson sem sló svo eftirminnilega í gegn í 39 þrep á síðasta leikári.

Verkið segir frá hjónunum Rebekku og Herberti, sem búa á Akureyri en eru komin suður til Reykjavíkur til að kynna bók Herberts; Farsælt hjónaband, sem er sjálfshjálparbók ætluð öllum hjónum sem vilja viðhalda hamingjusömu hjónabandi. En er hjónaband Herberts eins fullkomið og bókin gefur til kynna? Skyldi spjallþáttastjórnandinn Ellý Matt koma upp um „hneyksli aldarinnar“, eða kafnar hún inni í fataskáp áður en það tekst?

Farsæll farsi er gamanleikur eins og þeir gerast bestir, með hurðaskellum, feluleik, framhjáhaldi, misskilningi og það er allt á fullu í tæpa tvo tíma! Leikararnir tveir bregða sér í tíu hlutverk, og skipta því stöðugt um gervi. Þetta gerir sýninguna galdri líkasta.

Það er tilvalið að bregða sér á Farsælan farsa og hlæja dátt og sjá óviðjafnanlegan leikhúsgaldur!

Uppselt er orðið á  fyrstu sýningarnar, en ósóttar pantanir eru seldar daglega.

Miðasala er á www.leikfelag.is og www.menningarhus.is og í síma 4 600 200.

 

{mos_fb_discuss:2}