Fangi freistinganna er gjörningur sem mun fara fram í anddyri Tjarnarbíós frá 14. nóvember kl. 17.00 til 15. nóvember kl. 17.00. Jóhanna Lind Þrastardóttir, 26 ára gömul leikkona, stendur fyrir gjörningnum:

„Ég ætla að loka mig þar inni í 24 klukkustundir umkringd þeim freistingum sem mér finnst erfiðast að standast án þess að falla fyrir þeim.“

„Með mér verður leikkonan Monika Ewa Orlowska til aðstoðar. Monika er ekki fangi freistinganna. Hennar hlutverk felst í því að vera mín freisting og hefur fullt frelsi til að gera það sem hana langar.

Til dæmis er manneskjan stór freisting og því er mér óheimilt að hafa samskipti við hana á meðan á gjörningnum stendur.“

Sem manneskjur þurfum við að takast á við fleiri en eina freistingu á dag. Sem manneskjur þróum við aðferð til að hjálpa okkur við það verkefni daglega. Hver er sú aðferð og hvernig er það að vera lokuð í rými í 24 klukkustundir umkringd freistingum sem þú mátt ekki falla fyrir? Hversu lengi get ég haldið það út og hvað gerist í ferlinu? Hvað gerist ef ég stenst ekki freistingarinnar? Þetta er mitt fangelsi, svo hver er refsingin? Mun þessi gjörningur hjálpa mér við það að þroskast sem listamaður? Mun hann hafa áhrif á mig sem manneskju? Hvað er fangelsi?

„Komdu og vertu með mér. Taktu þátt og fáðu að fylgjast með hvað gerist í ferlinu. Komdu og upplifðu hvað ég er að ganga í gegnum og hvað ég er að hugsa.“