Leitin að sumrinu – Sólheimaleikhúsið
Leikstjóri: Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson
Tónlist: Hallbjörn V. Rúnarsson
Þegar komið var á Sólheima í Grímsnesi þann 1. maí síðastliðinn var blíðskapar veður og auðvelt að óska sér að það væri svona alla daga. Nú þegar þetta er skrifað er kominn rigningarsuddi. En það er einmitt þetta sem leikrit Sólheimaleikhússins fjallar um; breytingar á veðrinu og hringrás árstíðanna.
Leikurinn hefst á fögrum sumardegi og Jón aðalpersóna verksins nýtur sólarinnar og hitans. Hann leggst í sólbað, en allt í einu kemur kaldur gustur. Kári er mættur á svæðið með haustið. Kári og félagar hans tína laufin af trjánum og vindurinn blæs. Jón er ekki sáttur við þessar breytingar á veðrinu en verður á endanum að sætta sig við þær og þegar veturinn og vorið koma þá lærir hann smám saman að meta hverja árstíð fyrir sig. Árstíðarskiptin eru mjög sannfærandi og eiga búningarnir hvað mestan þátt í því en einnig lýsingin sem er miðuð við hverja árstíð fyrir sig. Skemmtilegar og snjallar leikhúslausnir eru notaðar í sýningunni, sem dæmi má nefna snjóinn sem eru hvítir pappírsmiðar sem leikararnir dreifa yfir sviðið og stór dúkur verður í höndum leikaranna beljandi stórfljót. Texti verksins er líka skemmtilegur og lúmsk fyndinn.
Verkið er upphaflega samið af Magnúsi Guðmundssyni, Ástþóri Ágústssyni og Guðmundi Lúðvík leikstjóra. Tónlistin skipar stóran sess í sýningunni og hver árstíð á í raun sitt lag auk þess sem margar senur eru undirstrikaðar með tónlistinni. Höfundur tónlistarinnar Hallbjörn V. Rúnarsson er jafnframt flytjandi flestra laganna. Áheyrendur fá líka stundum að taka þátt í tónlistinni og er það alltaf mjög vel til fundið í fjölskyldusýningum sem þessari.
Aðalpersóna verksins er eins og fyrr segir Jón og er leikin af Valgeiri Snæ Backman. Valgeir er mjög sannfærandi í sínu hlutverki og samleikur hans við aðrar persónur, sem flestar bera nöfn sinnar árstíðar góður. Aðrir sem eru í stórum hlutverkum eru Kristján Atli Sævarsson í hlutverki Kára, Þórður Ingi Guðnason í hlutverki Frosta og Árný Rún Helgadóttir í hlutverki Blævar. Þau gera persónum sínum mjög góð skil og Þórður Ingi Guðnason á stórgóðan leik í snjóboltaatriði sýningarinnar. Allir aðrir leikarar leika sín hlutverk líka af mikilli innlifum og undirrituð hafði sérstaklega gaman af farfuglunum þegar þeir komu og fóru.
Í heildina séð er hér um, fallega, skemmtilega og fræðandi sýningu að ræða og eru allir hvattir til að fara að sjá þær sýningar sem eftir eru.
Elín Gunnlaugsdóttir