Leikfélag Dalvíkur hefur á undanförnum vikum æft fjölskylduleikritið, Eyrnalangir og annað fólk eftir þær systur, Iðunni og Kristínu Steinsdætur, tónlist er eftir Ragnhildi Gísladóttur. Leikritið gerist á Dalvík í dag og segir frá því þegar flóttamenn frá eyjunni Sebrakapra koma í bæinn með nýja siði og annað útlit en bæjarbúar. Frumsýning verður föstudaginn 8. Mars. Hvernig á að koma fram við svona fólk? Hvernig gengur að skilja þeirra menningu og mataræði? Hvernig skyldi þeim líða að vera komin á allt annan og öðruvísi stað í heiminum en þau eru vön? Á ýmsu gengur en allt fer vel að lokum.
Stór hópur leikara er í sýningunni og má segja að ungir og áhugasamir leikarar syngi, dansi og leiki af hjartans lyst í Ungó þessa dagana. Leikstjóri er Saga Jónsdóttir og leikmynd hannar Hallmundur Kristinsson, um hljóðmyndina sér Aron Óskarsson, ljósahönnuður er Pétur Skarphéðinsson.