Nemendaleikhús Lhí og Þjóðleikhúsið frumsýna gleðileik Shakespeares, Þrettándakvöld föstudaginn 13. mars. Þetta er sívinsæll gamanleikur sem gerist í Illiríu þar sem ástleitinn greifi fellir hug til meyjar af aðalsættum sem ekki vill þýðast nokkurn mann – því hún syrgir bróður sinn. Önnur systkin, skipreka frá fjarlægu landi, verða síðan til þess að stokka rækilega upp í félagslífi Illeríumanna með tilheyrandi misskilningi, ástarfléttum og brellum. Og í kringum alla hirðina dansar fíflið Fjasti.

Útskriftarnemar leiklistardeildar LHÍ vinna ásamt leikurum Þjóðleikhússins undir leikstjórn Rafaels Bianciotto. Hann er þekktur fyrir óvenjulegar nálgunaraðferðir í leikhúsi, sem byggja einkum á grímuvinnu, “commedia dell arte” og trúðatækni. Hann leikstýrði rómaðri uppsetningu Borgarleikhússins á Dauðasyndunum á liðnu leikári. Hann er ættaður frá Argentínu en
hefur einkum starfað í Frakklandi.

Um leikmynd og búninga sér Helga I. Stefánsdóttir, höfundar tónlistar eru Gunnar Karel Másson og Haraldur Rúnar Sverrisson en þeir eru báðir nemendur í tónlistardeild LHÍ. Grímugerð annast Högni Sigurþórsson og lýsingu hannar Halldór Örn Óskarsson. Aðstoðarmaður leikstjóra er Sólveig Guðmundsdóttir.

Leikararnir Arnar Jónsson, Eggert Þorleifsson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir leika í uppfærslunni ásamt útskriftarárgangi Nemendaleikhúss Listaháskólans en í þeim hópi eru: Bjartur Guðmundsson, Hannes Óli Ágústsson, Lilja
Nótt Þórarinsdóttir, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Vigdís Másdóttir, Walter Geir Grímsson og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir.

{mos_fb_discuss:2}