ImageIngólfur Níels Árnason fræðslustjóri Íslensku óperunnar og óperuleikstjóri heldur utan um skemmtikvöld á vegum Óperunnar sem fer fram í Leikhúskjallaranum einu sinni í mánuði í vetur. Ingólfur Níels mun leggja áherslu á að blanda saman fræðilegri umfjöllun um óperur og óperulist ásamt því að skemmta fólki um leið. Hann mun taka útgangspunkt í mannsröddinni sem hljóðfæri, og fær hann óperusöngvara og tónlistarmenn til liðs við sig sem munu aðstoða hann við að skoða mannsröddina frá hinum ýmsu sjónarhornum. Þann 27. október mun Ingólfur Níels fjalla um sópranröddina og fær hann til liðs við sig sópran söngkonurnar Huldu Björk Garðarsdóttur og Hönnu Dóru Sturludóttur.
Húsið opnar klukkan 21.00 og er aðgangseyrir kr. 1.000.-