Leikfélag Dalvíkur og Dalvíkurskóli eru nú í samstarfi varðandi uppsetningu á leikverki fyrir unglinga sem verið að æfa þessa dagana.
Leiklist er kennd í skólanum sem valgrein í 9. og 10. bekk og samtals 16 nemendur sækja þessa faggrein í vetur.

Leiklistarhópurinn æfir nú í Ungó leikverkið “Þú ert í blóma lífsins fíflið þitt !” eftir Davíð Þór Jónsson og Unglingadeild Leikfélags Hafnarfjarðar.
Leiðbeinandi leikhópsins og leikstjóri uppfærslunnar er Arnar Símonarson. Hann er formaður Leikfélags Dalvíkur, en stjórn LD mun sérstaklega koma að skipulagningu og aðstoða við uppsetningu með ýmsum hætti.

Að sögn Arnars er leiklistarhópurinn skemmtilega samansettur. Hann segir að þetta séu allt afar áhugasamir krakkar og skemmtilegir og samstaða sé almennt ríkjandi, sem og dugnaður. Æft er síðdegis og á kvöldin, alla virka daga. Reynt er til hins ítrasta að koma til móts við leikara með tilliti til annarar frístundaiðju.

Arnar segir að verkið sem slíkt sé fjörugt og lifandi, en það fjallar í meginatriðum um lífið og tilveruna frá fæðingu og fram á fullorðinsár.
Þess ber að geta þess að þetta er í annað sinn sem unglingum í Dalvíkurbyggð er sérstaklega sinnt í leiklist, en fyrir nokkrum árum var sett upp á Dalvík unglingaleikritið, “Kverkatak” eftir Júlíus Júlíusson, sem þá var jafnframt leikstjóri.

Sviðsvinna verður í höndum Friðriks Sigurðssonar. Pétur Skarphéðinsson sér um ljósahönnun, Kristján Guðmundsson og Aron Óskarsson sjá um hljóð og ljósakeyrslu, Guðný Ólafsdóttir hannar leikskrá og umsjón með miðasölu verður í höndum Lovísu Maríu Sigurgeirsdóttur.
Fyrirhugað er að frumsýna þetta verk fimmtudaginn 22. febrúar næstkomandi og áætlað er að hafa 10 sýningar á verkinu í Ungó, eitthvað fram í marsmánuð.