Eiga áhuga- og atvinnuleikhúsfólk samleið?

Ég varð dálítið hissa þegar Vilborg bað mig um að vera með framsögu á þessu málþingi þar sem ég hef verið búsettur erlendis undanfarin ár. Mér fannst ég vera kominn svolítið úr tengslum við íslenskt áhugaleikhús, væri svona „yesterdays news“ þar sem hlutirnir breytast sífellt og tíminn líður hratt á gervihnattaöld. Ég vissi ekki alveg hversu mikið ég væri inn í málunum en ákvað samt að koma og hugsa aðeins upphátt um samspil áhugaleikhússins og atvinnuleikhússins þar sem mér hefur alltaf þótt áhugavert að skoða það frá ýmsum hliðum.

Ef maður byrjar á byrjuninni, skoðar þessi orð áhugaleikhús og atvinnuleikhús eða „áhugamennska“ og „atvinnumennska“ þá finnst mér „áhugamennska“ fallegra orð. Það er jákvætt orð, felur í sér að fólk hafi áhuga á því sem það er að gera. Maður verður bara að vona að þeir sem stunda „atvinnumennsku“ hafi líka áhuga á því sem þeir eru að gera. Sem er nú stundum, ef ekki oftast.

En svo notum við stundum önnur orð sem við fáum að láni úr útlensku, tölum um „professionalisma“ og „amateurisma“ og þau eru merkingarhlaðin á svolítið annan hátt. Við notum þau stundum eins og lýsingarorð og tölum um að einhver sé meira „professional“ en annar. Svo notum við „amateur“ í niðrandi merkingu, segjum að einhver sé bölvaður amatör. Þá er það spurningin, hvar liggja þessi skil, hvenær er einhver „professional“ og hvenær er hann „amateur“?

Hér á Íslandi eru þetta nokkuð hreinar línar. Ég held að flestir séu sammála um þá skilgreiningu á þessu fyrirbæri að atvinnumaður sé sá sem hefur aðalstarf sitt af að fást við leiklist og tekur þar af leiðandi laun fyrir. Til þess að geta gert það, þarf viðkomandi að hafa tilskilin réttindi sem hann yfirleitt fær með því að ljúka ákveðnu námi í viðurkenndum skólum og getur þar með gengið í stéttarfélag leikhúslistamanna, Leikstjórafélagið eða Leikarafélagið. Þar með ertu orðinn atvinnumaður í íslensku samhengi. Þarna eru reyndar undantekningar á, fólk getur náð sér í þessi réttindi eftir öðrum leiðum en þetta er meginreglan. Víða erlendis er þess öðruvísi háttað, þar eru þessi skil ekki eins skýr.

Við vitum það öll hér að atvinnumennska í íslensku leikhúsi er mjög ungt fyrirbæri, hefur aðeins verið stunduð í 50 ár. Hins vegar er saga leiklistarinnar miklu lengri. Hvort sem við viljum fara að ímynda okkur einskonar leiklist hér á þjóðveldisöld eins og ýmislegt bendir nú til að hafi verið, þá slitnaði alltént samhengið. Það má segja að það sé samfella allavega síðastliðnar tvær aldir og það er náttúrulega áhugaleikhús. Þannig að öll eigum við rætur í áhugaleikhúsinu.

Það er með stofnun Þjóðleikhússins 1950 sem að atvinnumennska verður til hér á landi. Það er svolítið merkilegt að sama ár er Bandalag íslenskra leikfélaga stofnað. Þá er eins og búinn sé til einhver veggur sem skilur þessa tvo hópa að, áhugaleikara annars vegar og atvinnuleikara hins vegar. Það voru reyndar atvinnumenn, Ævar Kvaran og fleiri, sem höfðu frumkvæði að stofnun Bandalagsins. Ævar hefur sagt frá því að þegar hann kom heim frá námi 1947 fór hann að vinna hjá áhugaleikfélögunum og stóð síðan ásamt Lárusi Sigubjörnssyni og fleirum að stofnun Bandalagsins. Hann talar um að honum hafi fundist hann vera gjalda skuld. Hann þekkti sinn uppruna og uppruna atvinnumennskunnar í landinu og fannst skylda sín að styðja við áhugaleikfélögin í landinu.

Fyrsta verk hans eftir stofnun samtakanna var einmitt að standa fyrir námskeiði fyrir leikstjóraefni. Á það komu 16 leikstjóraefni, víðsvegar að af landinu og Þjóðleikhúsið lagði til húsnæði. Þarna er það greinilega ekki orðið þannig að atvinnumenn sjái um leikstjórn í áhugaleikfélögum. Ég er ekki alveg nógu kunnugur því hvenær sú hefð kemst á en við vitum að Ævar hélt fleiri svona námskeið fyrir leikstjóra úr röðum áhugaleikara og tók síðan saman efni sem hann notaði á þessum námskeiðum og gaf út í bókinni „Á leiksviði“ árið 1966.

Ég hef stundum skoðað þessa bók og hún er náttúrulega barn síns tíma. Þetta er sama ár og sjónvarpið hefur útsendingar og það er gaman að skoða þessa hluti sögulegu og samfélagslegu samhengi. Hugmyndafræði „Á leiksviði“ er mjög augljós. Það er gengið alveg út frá því að vettvangur áhugaleikfélaganna sé að setja upp leikrit, íslenskt eða erlent, og gera það með tiltölulega hefðbundnum hætti, taka í það ca. 6 vikur, byrja með samlestri og enda með frumsýningu. Það er ekkert annað til umræðu í þessari bók.

En tímarnir breytast og einhverntímann kemst á þessi hefð að áhugaleikfélögin fara að fá atvinnuleikstjóra til setja upp sýningar. Þá fer eitthvað batterí af stað, samningar eru gerðir, ríki og sveitarfélög koma inn í og fjárveiting er miðuð við leikstjóralaun.

Áhugaleiklist á Íslandi hefur birst mér með ýmsum hætti á þeim langa tíma sem ég hef verið á sveimi. Ég hef komið þrisvar með ákveðnu millibili að áhugaleikstarfi á Íslandi, fyrst í kringum 1980, svo um 1990 og er ég núna aftur við þessi árþúsundaskipti að koma að þessu í þriðja sinn. Í millitíðinni hef ég verið oft erlendis eða verið að sinna öðrum störfum og mér finnst alveg ótrúlega margt hafa gerst.

Ég var nýkominn frá námi þegar mér bauðst að fara austur á firði og setja upp leiksýningu. Þá lá allt ljóst fyrir, það voru ákveðnir samningar í gildi, ég átti að fá ákveðin laun, vinna í sex vikur, fjóra tíma á dag og gera sýningu úr nýju íslensku leikriti. Það voru sjö hlutverk í þessu leikriti ef ég man rétt, þar af fjögur nokkuð stór, og fyrsta vandamálið sem ég rek mig á þegar ég kem í bæinn er að það eru engir leikarar. Þetta er áhugaleikfélag og það er enginn áhugi á að leika! Ég er kominn hingað, á fullu kaupi og það eru engir leikarar.

Þá byrjar þessi prósess að rúnta um bæinn og reyna að tala fólk á að vera með. Sérstaklega vantaði konu í burðarhlutverk. Það var drukkið mikið kaffi og fullt af fólki heimsótt og loks tókst okkur að tæla einhverja konu til að vera með þótt hún hefði aldrei áður leikið og væri frekar skelfingu lostin yfir þessu öllu saman. En það voru í þessum hóp tveir ungir mjög áhugasamir leikarar. Svo var þarna gamall formaður sem, jú ætlaði að vera með af því að það þurfti að setja upp sýningu og svona. Þetta kom mér allt mjög spánskt fyrir sjónir.

Svo förum við af stað og öllum finnst ofsalega gaman og við frumsýnum fyrir stútfullu húsi af prúðbúnu fólki. Það er önnur sýning og aftur er stútfullt hús og ég var í bænum þegar þriðja sýningin var og enn var stútfullt hús. Svo fór ég og frétti af því að sýningin gekk og gekk og áhorfendatalan varð hærri en íbúafjöldi bæjarins þannig að fólk kom úr öðrum byggðalögum að sjá þetta og síðan var farið í leikferð. Þannig að þarna var áhuginn allur hjá áhorfendum, ekki leikurunum!

Þetta endurspeglar kannski hlutverk áhugaleikfélagsins upp úr miðri síðustu öld samkvæmt bók Ævars, að þetta er einhver samfélagsleg skylda. Það er einhver hefð fyrir því í hinum dreifðu byggðum landsins að sett sé upp leikrit. Í dag væri sagt „markaðurinn vill þetta, markaðurinn öskrar á þetta“. Fullt af fólki var tilbúið að koma og sjá sýningarnar en ég átti eftir að upplifa þetta aftur þegar ég fór út á land að leikstýra á næstu árum, það voru eiginlega alltaf þessi byrjunarvandræði að finna leikara, til að manna sýninguna. Áhorfendur létu hins vegar ekki á sér standa.

Ég kem inn á þetta vegna þess að ég ætla ræða um almennt samfélagslegt, menningarlegt og uppeldislegt hlutverk áhugaleikfélaganna og „til hvers áhugaleikhús?“ og allt það.

Því svo hverf ég brott til annarra starfa en á árunum kringum 1990 vinn ég aftur með áhugaleikhóp. Sá hét Leiksmiðja Reykjavíkur og starfaði í Reykjavík. Þar voru formerkin allt önnur. Þar var áhuginn slíkur að ég fékk varla svefnfrið, þetta fólk vildi vera að alla daga og nætur. Það skipti engu máli hvort verið var að setja upp sýningu eða ekki, það var verið að þjálfa og æfa. Það voru raddþjálfun og líkamsþjálfun og spunaþjálfun, áhuginn alveg yfirþyrmandi hjá þátttakendum. Áhorfendur héldu sig hins vegar víðs fjarri. Það var ekki „markaður“ fyrir þetta nema í afar litlum mæli. Þessi hópur byggði fyrst og fremst á því að þátttakendur höfðu áhuga á að stunda leiklist og lögðu sig eftir því.

Þá fór ég að reka mig á ýmis vandamál varðandi samninga og því um líkt því þessi vinna var mjög óhefðbundin. Hún féll ekki inn í þann ramma að taka eitthvað leikrit og setja það upp, heldur var verið að skapa sýningar, vinna með spuna og það passaði mjög illa inn í rammann. Það var reynt að verðleggja þessa vinnu og það má segja að ég hafi farið þarna í hlutverk áhugamannsins og við unnum þetta meira og minna án peninga. Það þurfti svolítið að komprimera til að finna leiðir til að fá einhverstaðar framlag, það þurfti að skilgreina námskeiðið, búa til stundatöflur og tímatöflur sem var hið besta mál því það þarf nefnilega að gera. Að hafa þessa hluti á hreinu þannig að einhverjar stofnanir og stéttarfélög verði ekki dragbítur á sköpunina og þá þörf sem er fyrir hendi.

Á þessum tíma áttaði ég mig á að áherslunar í áhugaleikhúsinu höfðu greinilega breyst mjög mikið, í Reykjavík hafði leikfélögum skotið upp eins og gorkúlum, Hugleik, Leyndum draumum, Snúð og Snældu o.s.frv. Það var allt í einu komið fullt af áhugaleikfélögum hér á Suðvesturhorninu og það var bara í samræmi við alla byggðaþróun í landinu.

Ég hvarf aftur á brott og 10 árum síðar kem ég að þessu á ný með þeim hætti að á síðasta ári tók ég að mér að kenna í Leiklistarskóla Bandalagsins. Allt í einu er kominn skóli og fullt af nemendum. Það var ákaflega ánægjulegt en það sem er mér minnistæðast var þegar okkur var boðið til Dalvíkur að sjá leiksýningu hjá Leikfélagi Dalvíkur. Þetta var einmitt einmitt sýning sem var að öllu leyti áhugasýning. Þar voru áhugamenn úr bænum sem höfðu skrifað verkið, leikstýrðu og léku í því, það komu engir atvinnumenn nálægt vinnunni. Og ég sat út í sal og skemmti mér konunglega, þetta var mjög athyglisverð sýning fyrir margra hluta sakir.

En ef ég set upp gleraugu fagmannsins og horfi á hana er ákaflega auðvelt að standa upp og benda á ótal atriði sem betur hefðu mátt fara út frá ströngu, faglegu sjónarmiði. Það voru t.d. mjög augljósar brotalamir í sjálfu handritinu, verkið var rosalega doppótt og skrítið og margir útúrdúrar sem hefði mátt laga strax. Góður fagmaður hefði getað bent á hina Aristótelesku hefð og þannig hefði mátt laga margt. Eins hefði mátt taka á mörgu í sambandi við leikstjórnina, það voru margir ólíkir leikstílar í gangi, þótt það hafi ekki verið ætlunin, og allt sem laut að útliti sýningarinnar, hárkollur, gervi, búningar alltsaman.

Ef við setjum nú ímyndaða tilraun af stað, þessi sýning hefði fengið svona „treatment“ eins og tíðkast gjarnan erlendis þegar verið er að prufukeyra verk. Ef við hefðum sett þetta í vinnslu og það hefði verið fenginn einhver dramatúrgur og einhver leikstjóri sem hefði tekið handritið og unnið heilmikið í því og sett þetta aftur í hendurnar á höfundum o.s.frv., o.s.frv. þá erum við komin með svona „well written play“. Svo hefði komið atvinnuleikstjóri og farið leikstýra og eftir þessa meðferð hefði örugglega verið búið að fækka karakterum það mikið að það hefði verið úr miklu fleiri leikurum að velja í hvert hlutverk og sýningunni eflaust verið breytt að talsverðu leyti. Það hefðu kannski komið einhverjir fagmenn að með ráðgjöf varðandi leikmynd og búninga og allt slíkt.

En þá spyrjum við; hvað hefði þetta gert fyrir þessa sýningu? Það hefði sennilega bara steindrepið hana. Gengið frá henni. Vegna þess að drifkrafturinn í þessari sýningu var akkúrat þessi óskilgreindi frumkraftur sem þarna óð um allt. Og þá kemur spurningin; er yfirleitt einhver áhugi fyrir fagmönnum í áhugaleikhúsinu? Koma þeir ekki bara til að hafna og eyðileggja?

Þetta segi ég nú kannski bara til að stuða samkomuna pínulítið því ég er nú á því að við eigum samleið. Við getum tekið fleiri dæmi um það. Ég var að ræða við gamlan kunningja minn úr áhugaleikfélagi hérna áðan um sýningu sem við gerðum forðum og um að það að stundum hafa verk verið frumflutt hjá áhugaleikfélögum úti á landi og síðan hafa atvinnuleikhúsin reynt að taka þau upp hér. Oftar en ekki hefur þetta alls ekki virkað hjá þeim vegna þess að það eru svo misjafnar og ólíkar forsendur fyrir því af hverju fólk er að gera leikhús, fyrir hverja og til hvers.

Ég held að við verðum að taka tillit til þess, bæði við atvinnumennirnir og áhugaleikfélögin, að hve flóran er orðin svo litrík. Það eru svo áhugaleikfélög sem eru svo gjörólík með svo mismunandi markmið og þarfir að það getur verið flókið að finna réttar leiðir. Hver hópur þarf að skilgreina sín markmið og við fagmennirnir að leita leiða til að koma til móts við þessi ólíku markmið.

Þegar kemur að kjarasamningum hefur það stundum farið í taugarnar á mér hvað þeir bera lit af einhverri hefð sem var til staðar um það leyti sem Ævar skrifaði bókinna góðu. Það er ekki gert ráð fyrir annarskonar samspili en að það komi einhver leikstjóri og leikstýri.

Nú hefur það færst mjög í aukana að áhugaleikfélögin séu að semja sjálf. Að meðlimir þeirra séu að skrifa. Þarna er helsti vaxtarbroddurinn í íslenskri leikritun, hann er í áhugaleikfélögunum. Þarna koma fram ný verk, ýmist unnin af einstaklingum innan félagsins eða í hópvinnu og það er óskaplega þakklátt vegna þess að ungt fólk í dag vill aðallega skrifa fyrir kvikmyndir. Það þarf að rækta upp höfunda. Þá er það spurning hvort að aðrir fagmenn en leikstjórar geta komið þarna að, t.d. dramatúrgar? Er hægt að finna eitthvað annað form til þess að styrkja við þann gróður.

Svo tel ég líka að hægt sé að koma á ýmiskonar samstarfi, hvort sem það er við dramatúrga, rithöfunda, leikmyndahönnuði, búningahönnuði, ljósahönnuði og jafnvel leikara. Fyrir slíku eru fordæmi eins og þegar Gunnar Eyjólfsson, þá stórstjarna í Þjóðleikhúsinu, skellti sér norður og lék gestaleik með Leikfélagi Húsavíkur 1976 eða 7. Lék þar Pétur Gaut í leikstjórn heimamanns, Sigurðar Hallmarsson.

Kannski vantar leikara í dag svolítið af auðmýktinni sem Ævar Kvaran hafði, þakkarskuldina við söguna og tengslin við upprunann. Kannski er þessi afstaða sem liggur í notkun orðanna „professional“ og „amateur“ bara ákveðinn hroki. Leikurum með stimpil frá skóla þykir það kannski eitthvað niðurlægjandi að leika með áhugafólki. Mér finnst það afar vitlaus afstaða.

Ég held nefnilega að málið sé að þessi múr sem var reistur á milli áhugafólks og atvinnumanna um miðja síðustu öld geti verið svolítið hættulegur. Mín skoðun er að báðir aðilar geti notið góðs af hvorum öðrum. Sagan hefur bara sínt okkur það. Atvinnuleikhúsið er t.d. sprottið upp úr áhugaleikhúsi og í áhugaleikhúsinu gerist margt sem ekki er pláss fyrir í þeim þrönga heimi sem við atvinnumennirnir vinnum oft í. Ég held að í öllum okkar þreyfingum um samstarf og samvinnu þurfum við að vera opin í sambandi við samninga, því auðvitað verður að launa þessu fólki. Fólki eins og mér, sem hef eytt milljónum í að mennta mig og verð auðvitað að fá laun fyrir mína vinnu.

Við verðum bara að passa okkur á að þetta gamalgróna form verði ekki dragbítur á þróun. Það setji höft og bindi áhugaleikfélögin í einhverjum hefðum sem verða rútína því að það er ekki hægt að fá neitt fjármagn til neins annars en að ráða leikstjóra til að setja upp sýningu. Það þurfa að vera fleiri leiðir og fleiri möguleikar á samningum fyrir alls kyns námskeiðahald og kannski tilraunavinnu þannig að leikstjórar og aðrir atvinnumenn geti komið að þessu starfi líka með öðrum hætti.

Þarna held ég ábyrgðin liggi hjá báðum aðilum. Áhugaleikfélögin þurfa að vera dugleg að skilgreina sjálf sig. Hvert er markmiðið og tilgangurinn? Hvað er hver hópur fyrir sig að gera? Hvernig vill hann þá hugsanlega nýta sér fagmenn. Eins verðum við fagmennirnir á að koma til móts við þessar þarfir.

Ég lík máli mínu með því að vitna í Mao formann; „Að lofa hundrað blómum að spretta“. Áherslan á að vera á að finna farveg fyrir uppbyggilegt og skapandi flæði á milli þessara tveggja hópa. Samningabrölt verður oft svo þungt í vöfum og mér finnst sagan hafa sýnt okkur það að stofnanir, stéttarfélög og annað hafa oft með þyngslum sem fylgja samningum staðið í vegi fyrir lifandi og skemmtilegri þróun. En auðvitað þurfum við að semja vel, fólk þarf að fá launin sín, þetta snýst ekki um það en bara… lofa hundrað blómum að spretta!

* Rúnar flutti framsöguna blaðlaust og er hún skrifuð upp eftir hljóðritun og lítilega stytt og snyrt.