Ég var beðinn um að halda þetta erindi hérna vegna þess að ég er alltaf með kjaftinn uppi, hef skoðanir á öllu, er alltaf að skipta mér af. Stundum hafa skoðanir mínar vakið pirring, jafnvel reiði. Ég hef t.d. heyrt að ákveðið leikfélag á landinu hafi gefið út skotveiðileyfi á mig. So.

Við búum við tjáningarfrelsi og þegar ég læt skoðanir mínar í ljósi eru þær ekki endilega réttar né réttmætar, þetta eru mínar skoðanir og ég skammast mín ekkert fyrir þær, enda hefur markmiðið hjá mér ævinlega verið að að reyna að bæta leiklistarstarfsemi í landinu.

Við megum vera stolt af leiklistinni í landinu, við erum öll sprottin úr áhugahreyfingunni á einn eða annan máta. Við værum ekki að þessu ef við hefðum ekki áhuga á leiklist, jafnvel haldin ástríðu sem oft kemur okkur áfram í það að verða atvinnumenn í þessu fagi. Við þurfum öll að hafa metnað til að bera gagnvart hverju því verkefni sem við störfum að. Það á ekki að skipta máli um hvernig sýningu er að ræða, ef allir leggjast á eitt með að gera sitt besta gerast oftast kraftaverk.

– gera áhugaleikfélögin nægilegar listrænar kröfur til leikstjóranna?
Áhugaleikfélögin í landinu eru fjölmörg, gerólík og byggja á mismunandi grunni, reynslu og hefða í hverju leikfélagi fyrir sig. Því er ekki alltaf réttmætt að bera saman verkefnaval á milli félaganna. Það er ekki það sama fyrir leikfélag Rangæinga og leikfélag Fljótsdalshéraðs að setja upp Kardimommubæinn, það er heldur ekki sama fyrir Leikfélag Sauðarkróks og Leikfélag Hveragerðis og Leikfélag Kópavogs eða önnur leikfélög. Því þegar leikhópur kemur saman með ákveðið verk í huga er hópurinn kominn með kröfur, kröfur til sjálfs sín, kröfur til leikstjórans, en þá vaknar sú spurning, hvað eru nægilegar listrænar kröfur. Eru nægilegar listrænar kröfur að leikstjórinn sé bara búin að lesa handritið? Að leikstjórinn sé komin með hugmynd að útfærslu verksins? Að leikstjórinn sé mættur á staðinn?

Ég hef starfað með fjölmörgum mimunandi leikfélögum, sem gert hafa mismunandi listrænar kröfur til mín, í allflestum tilvikanna hefur samstarfið enda verið farsælt. Ég veit hvaða listrænu krafna ég óska eftir, og oftastnær helst það í hendur við þær listrænu kröfur sem ég geri til sjálfs mín.

– gera leikstjórar nægilegar listrænar kröfur til leikfélaganna?
Við vitum að leikfélögin í landinu eru í mismunandi stakk búin til að takast á við uppsetningu leiksýningar, hvaða húsakost hafa þau, hvernig er mannskapurinn samansettur. Eiga þau ljósabúnað, búningasafn osfv. Það er heldur ekki sama hjá hvaða leikfélagi leikstjóri er að fara að setja upp.
Er leikstjórinn að leikstýra þarna í fyrsta skipti eða hefur hann verið þar
áður og þekkir til? Því betri upplýsingar sem leikfélag getur gefið leikstjóra áður en hann kemur til starfa hjá leikfélaginu því meiri og betri listrænar kröfur getur leikstjórinn gert til félagsins, því fyrr sem leikfélögin ráða leikstjórann því betur getur hann kynnt sér félagið og komið fram með listrænar kröfur til verkefnisins sem hann er að taka að sér.

Þetta á ekki bara við áhugaleikfélögin, því það er enginn munur á hvernig er leikstýrt í áhugaleikhúsi og atvinnuleikhúsi. Við þurfum bara öll að vera með kröfur. En aftur hvað eru nægilegar listrænar kröfur? Er nægilegt að krefjast þess að leikfélagið hafi haldið undirbúningsfund með félagsmönnum og kannað áhuga félgasmanna? Er nægilegt að leikfélagið sé búið að finna sýningarhúsnæði? Er nægilegt að það sé búið að ljósrita handritin þegar leikstjóri mætir á fyrsta samlestur? Er nægilegt að hugsa, æ hann hefur verið hér áður, hann reddar þessu?

Ég hef verið svo heppinn persónulega að vinna oft hjá sömu leikfélögunum, þannig að við höfum lært inn á hvert annað og því höfum við getað aukið listrænu kröfurnar, því mín skoðun er að listrænar kröfur eru aldrei nægar, við getum alltaf gert betur.

Er pláss fyrir nýsköpun í samvinnu leikstjóra og áhugaleikfélaga? Það hlýtur að vera pláss fyrir nýsköpun í samvinnu leikstjóra og leikfélaga, en hvað er nýsköpun í leikhúsi? Er nýsköpun að vinna með frumsamið verk sem er í alla staði hefðbundið? Er nýsköpun að takast á við framúrstefnuverk? Er nýsköpun að takast á við eitthvað hefðbundið á óhefðbundin máta? Er nýsköpun að leikstjóri sem unnið hefur eingöngu með drama setji upp farsa? Er nýsköpun ekki að koma að hverju verki fyrir sig með opnu hugarfari til að gera það besta úr verkefninu?

Samskipti áhugaleikfélaga og leikstjóra þurfa að vera á jáklvæðan máta, við megum ekki líta á hvort annað sem óvininn, við störfum við geira þar sem farsælt samstarf allra hlutaðeigandi skapar það kraftaverk sem leiksýning er, hvort sem um er að ræða atvinnumanninn sem gerir ekkert annað eða áhugamanninn sem gerir þetta eftir sína daglegu vinnu. Áhugaleikhús er hross atvinnuleikarans.

Auðvitað getur komið upp ágreiningur, en í hvaða samskiptum gerir það ekki? Er það því ekki okkar að reyna að leysa ágreiningsmál á farsælan máta, læra af því og leggja til hliðar, horfa á björtu hliðarnar og taka saman höndum og horfa til framtíðar með það hugarfar að bæta allt leikhús og leikhúslíf í landinu. Ég held við getum öll verið sammmála um það að leikfélögin í landinu berjast í bökkunum við að halda starfsemi sinni áfram, fjárskortur hrjáir flest þeirra. Áhugaleysi stjórnvalda sem og bæjaryfirvalda, halda aftur af þeim, áhugaleysi bæjarbúa og margt fleira kemur til.

Oftast nær heyrir maður að leikfélagið hafi ekki efni á að ráða til sín leikstjóra, þá kemur stundum til að leikfélögin ráði sér heimaleikstjóra, eða ófaglærðan leikstjóra frá öðru félagi. En það á ekki að skipta máli. Leikstjóri er bara leikstjóri. Ég hef heyrt því fleygt að með því að stofna sinn eigin skóla séu leikfélögin að höggva af sér eiginn fót hvað varðar framþróun í áhugaleiklist á landinu. Ég ætla ekki að dæma um það. Persónulega hef ég ekkert á móti því að leikfélög séu með sem flesta og fjölbreyttasta leikstjóra.

Það hefur lengi verið mín skoðun að hér á landi vanti meiri hreyfanleika í leiklistarstéttina. Því það er staðreynd að við eigum áhugaleikara sem standa atvinnuleikurum ekkert að baki, því ætti svo að vera farið að atvinnuleikstjórar séu endilega hæfileikaríkari heldur en margur áhugamaðurinn. Við erum öll frá sömu plántu. Við erum öll að reyna okkar besta. En sundrung stoðar engann, eingöngu með samvinnu og samhug getum við tekist á við að bæta fjárskort og önnur ágreiningefni, til að skapa meðtnaðarfyllri leikhús, þar sem framþróun er efst á blaði. Finnum okkur sameiginlegar forsendur til leikhúss framtíðarinnar.